Viðskipti erlent

Landsframleiðsla á evrusvæðinu umfram væntingar

Landsframleiðsla jókst um 0,7% á evrusvæðinu á fyrsta fjórðungi ársins miðað við sama tímabil í fyrra samkvæmt tölum sem Hagstofa Evrópusambandsins birti í morgun.

Fjallað er um málið í Morgunkorni Glitnis en þar kemur fram að þessi hækkun var umfram væntingar. Meðalspá greiningaraðila samkvæmt könnun Bloomberg hljóðaði upp á 0,5% vöxt á fjórðungnum.

Hækkunin stafar einkum af meiri hagvexti í Þýskalandi og Frakklandi en búist var við. Landsframleiðsla í Þýskalandi jókst um 1,5% á fyrsta ársfjórðungi sem er langt umfram væntingar. Þetta er mesti hagvöxtur þar í landi í 12 ár.

Vóg Þýskaland upp á móti hægari vexti í Ítalíu og Spáni á fjórðungnum. Hagvöxtur á evrusvæðinu á fyrstu þremur mánuðum ársins miðað við sama tíma síðasta árs var 2,2% líkt og á 4. ársfjórðungi síðasta árs, en búist var við 1,9% hagvexti á tímabilinu.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×