Viðskipti innlent

Kaupþing með 70 prósenta hlut í SPM

Gísli Kjartansson, sparissjóðsstjóri SPM.
Gísli Kjartansson, sparissjóðsstjóri SPM.

Stjórn Sparisjóðs Mýrasýslu hefur ákveðið að leggja til við fund stofnfjáreigenda að stofnfé sjóðsins verði aukið um 2 milljarða króna. Stjórnin leggur ennfremur til að Borgarbyggð falli frá rétti sínum til þess að skrá sig fyrir nýju stofnfé en verði þó áfram í hópi stofnfjáreigenda með um 20 prósent í sjóðnum. Kaupþing banki hefur skuldbundið sig til þess að skrá sig fyrir 1.750 milljónum og aðrir fjárfestar fyrir 250 milljónum. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Þar segir einnig að Kaupþing hafi jafnframt skuldbundið sig til þess að útvega SPM kaupanda að 8,73% eignarhlut Sparisjóðs Mýrasýslu í Icebank hf.

„Eftir stofnfjáraukninguna verður hlutur Kaupþings í stofnfé SPM 70%, hlutur Borgarbyggðar 20% og annarra fjárfesta 10%. Áætlað er að fundur stofnfjáreigenda, þar sem tillaga stjórnar verður lögð fram, verði föstudaginn 15. ágúst," segir í tilkynningunni.

„Rekstur SPM hefur verið erfiður á fyrri hluta ársins vegna slæms árferðis á fjármálamörkuðum. Með nýju stofnfé verður fjárhagslegur grundvöllur sjóðsins traustur og hann mun þjóna viðskiptavinum sínum vel hér eftir sem hingað til," segir Gísli Kjartansson, sparisjóðsstjóri. „Stjórn sjóðsins fagnar því að fjárhagslegur grundvöllur sjóðsins sé treystur og að Kaupþing hafi ákveðið að taka þátt í stofnfjáraukningunni. Stjórnin væntir góðs af samstarfinu við bankann," segir Sigurður Már Einarsson, formaður

stjórnar sparisjóðsins.

Að lokum segir að stofnfjáraukningin sé háð samþykki lánveitenda Sparisjóðs Mýrasýslu, Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×