Erlent

Nýnasistar á metamfetamíni hugðust drepa Obama

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Lögregla í Denver í Colorado hefur handtekið fjórmenninga, þrjá menn og konu, sem grunaðir eru um að hafa lagt á ráðin um að skjóta forsetaframbjóðandann Barack Obama til bana þegar hann ávarpar 80.000 manns á íþróttaleikvanginum þar á fimmtudag.

Málið hófst með handtöku 28 ára gamals manns sem ók glæfralega um götur Aurora, sem er í grennd við Denver, á sunnudagsmorgun. Sá handtekni var á leigðum pallbíl og leiddi leit í bílnum í ljós tvo kraftmikla riffla með mögnunarsigti, klæðnað í felulitum, handtalstöðvar, hárkollur, skotheld vesti, skilríki með nöfnum annars fólks og 44 grömm af metamfetamíni. Í kjölfarið var annar maður handtekinn eftir að hafa stokkið út um glugga á sjöttu hæð hótels í borginni. Sá öklabrotnaði við fallið og var skreyttur hakakrossi auk ýmissa muna sem tengdu hann við öfgasamtök hvítra manna.

Að lokum handtók lögregla par sem tengdist hinum tveimur. Fólkinu er haldið á grundvelli vopna- og eiturlyfjahandhafnar en við yfirheyrslur játuðu einhver þeirra að þau hefðu verið á leið til Denver gagngert til að ráða Barack Obama af dögum og hefði verið ætlun þeirra að skjóta hann „með kraftmiklum riffli af 750 metra færi frá stað í mikilli hæð."

Öryggisráðstafanir vegna þings Demókrataflokksins hafa verið hertar töluvert vegna þessa atviks og hefur alríkissaksóknari í Denver boðað blaðamannafund síðdegis í dag. Hann telur þó ólíklegt að fjórmenningarnir hafi verið raunveruleg ógn við Obama. Embættismaður sem þekkir til rannsóknar málsins segir vafasamt að hin handteknu hafi haft getu til að framkvæma meint ætlunarverk sitt. CBS4 greindi frá þessu.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×