Viðskipti innlent

Tap heimsins á íslensku bönkunum 17 milljónir kr. á hvern Íslending

Tap banka og fjármálastofnana heimsins á íslensku bönkunum samsvarar 17 milljónum kr. á hvern Íslending. Í dag hefst fyrsta uppboðið af þremur á skuldatryggingum íslensku bankanna og er það Landsbankinn sem er fyrstur.

Reiknað er með að tap þeirra sem seldu skuldatryggingar á lán og skuldabréf Landsbankans nemi 1,8 milljarði dollara eða um 200 milljörðum kr.. en hin endanlega tala liggur fyrir síðar í dag.

Alls hafa yfir 160 bankar og fjárfestar lýst yfir kröfum í skuldatryggingar bankanna og er áætlað að heildarupphæðin að baki tryggingunum nemi um 6.000 milljörðum kr.. Reiknað er með að þeir sem seldu tryggingarnar þurfi að borga 97% af þeim upphæðum sem tryggðar voru. Framreiknað gerir það 17 milljónir kr. á hvern Íslending.

Uppboðið á skuldatryggingum Glitnis fer fram á morgun og Kaupþings á fimmtudag.

Bloomberg-fréttaveitan hefur það eftir Puneet Sharma sérfræðingi hjá Barclays Capital í London að margir muni tapa miklum fjárhæðum á þessum uppboðum. Nefnir hann máli sínu til stuðnings að skuldabréf íslensku bankanna hafi gengið kaupum og sölum á 3 aura fyrir krónuna undanfarnar vikur eða með 97% afföllum.

Til samanburðar má nefna að skuldabréf Lehman Brothers bankans í Bandaríkjunum gengu kaupum og sölum á 13 cent fyrir dollarann fyrir samskonar uppboð á skuldatryggingum þess banka.

 

 

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×