Viðskipti innlent

Kaupa helmingshlut í SecurStore

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Þeir stýra rekstrinum Milli Alexanders og Eiríks Þórs Eiríkssona, stofnenda Tölvuþjónustunnar SecurStore á Akranesi, stendur Örn Gunnarsson nýráðinn framkvæmdastjóri. Allir eru þeir Akurnesingar og ætla sér stóra hluti með fyrirtæki sitt utan landsteinanna. Markaðurinn/Anton
Þeir stýra rekstrinum Milli Alexanders og Eiríks Þórs Eiríkssona, stofnenda Tölvuþjónustunnar SecurStore á Akranesi, stendur Örn Gunnarsson nýráðinn framkvæmdastjóri. Allir eru þeir Akurnesingar og ætla sér stóra hluti með fyrirtæki sitt utan landsteinanna. Markaðurinn/Anton
Bjarni Ármannsson og Örn Gunnarsson hafa til jafns keypt helmingshlut í tölvufyrirtækinu Secur­Store á Akranesi. Kaupverð er ekki gefið upp, en áætluð velta SecurStore á þessu ári nemur 200 milljónum króna.

Fyrirtækið hefur sótt fram í Bretlandi með öryggisafritunar­þjónustu yfir netið, en þar segja forsvarsmenn SecurStore vöxt hafa numið 100 prósentum á ári. Markmið Secur­Store er sagt vera að verða innan þriggja ára eitt af þremur stærstu fyrirtækjum á sínu sviði.

Örn lætur af störfum sem framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Saga Capital og tekur við starfi framkvæmdastjóra SecurStore. Bjarni Ármannsson verður stjórnarformaður SecurStore.

Alexander Eiríksson lætur af starfi framkvæmdastjóra SecurStore en tekur við stjórn sölu- og markaðsmála. Hann hefur hefur með bróður sínum Eiríki Eiríkssyni, sem er fjármála- og rekstrar­stjóri, leitt uppbyggingu fyrirtækisins undanfarin ár. Þeir bræður stofnuðu fyrirtækið árið 1991. Árið 2004 var svo tekin stefnumótandi ákvörðun um að sérhæfa sig í afritun gagna yfir netið og SecurStore afritunarþjónustan sett á laggirnar.

Bjarni Ármannsson segir Secur­Store spennandi fjárfestingu þar sem stofnendur og starfsmenn hafi unnið „frábært starf í að byggja grunn félagsins með þeim hætti að innviðirnir þoli hraðan vöxt og sókn á kröfuhörðum markaði".






Fleiri fréttir

Sjá meira


×