Viðskipti innlent

Hekla lækkar verð á bílum um allt að 17 prósent

Bifreiðaumboðið HEKLA lækkar verð á nýjum bílum um allt að 17 prósent í kjölfar betri samninga við framleiðendur. Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að lækkunin taki strax gildi og þar með sé að talsverðu leyti gengin til baka sú hækkun sem orðið hefur á nýjum bílum hjá fyrirtækinu frá áramótum. Forsvarsmenn atvinnulífsins og launþega voru viðstaddir í dag þegar tilkynnt var um lækkunina.

„Við sóttum fast að okkar framleiðendum um að fá betra verð í ljósi aðstæðna og erum í dag að lækka verðskrá okkar umtalsvert. Við teljum að með þessu séum við að leggja okkar lóð á vogarskálarnar í baráttu gegn verðbólgu," segir Knútur G. Hauksson, forstjóri HEKLU.

„Verðbólgan er okkar helsti óvinur og atvinnulífið hefur mikið um það að segja hvernig þau mál þróast."„Hækkun á bílum undanfarna mánuði er einn af þeim þáttum sem hafa leitt til hækkunar á vísitölunni og þar með aukinnar verðbólgu," segir Sverrir Viðar Hauksson, framkvæmdastjóri bílasviðs HEKLU. „Krónan hefur veikst hratt frá áramótum og við urðum jafnt og þétt að hækka verð á okkar bílum, þó hækkanir hafi ekki verið jafn miklar og gengislækkunin. Strax í byrjun árs hófum við jafnframt samningaviðræður við okkar framleiðendur um hvernig væri hægt að bregðast við þessu ástandi. Niðurstaðan er sú að Volkswagen, Audi, Skoda og Mitsubishi, ásamt KIA, samþykktu að koma til móts við okkur. Því getum við nú kynnt mikla verðlækkun á nýjum bílum, eða allt að 17%, sem tekur gildi strax í dag."

Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segist fagna því þegar fyrirtæki eins og HEKLA sýna ábyrgð og vilja til að taka þátt í slagnum við verðbólguna. „Við erum að sjá öll einkenni óðaverðbólgu hér á landi og því verðum við að bretta upp ermar og taka á málinu í sameiningu."

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, tekur í sama streng. „Þetta framlag HEKLU skiptir miklu máli við núverandi aðstæður, því miklu skiptir að verðbólgan hjaðni hratt. Óskandi væri að fleiri innflutningsfyrirtæki gætu náð sama árangri í samningum við sína birgja og ætti árangur HEKLU að geta orðið þeim hvatning. Lágt gengi krónunnar um þessar mundir skapar allt aðrar aðstæður á markaði en verið hafa, eftirspurnin breytist og ekki er sjálfgefið að unnt verði að velta hærra innkaupsverði út í verðlagið."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×