Viðskipti innlent

Íbúðalánasjóður eykur við húsbréfaútgáfu sína

Íbúðalánasjóður áætlar að gefa út á bilinu 47-51 milljarða kr. virði af íbúðabréfum á seinni hluta ársins og er það hækkun um 10-12 milljarða kr. frá fyrri áætlun.

Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá sjóðnum. Ástæður endurskoðunarinnar eru fyrst og fremst rýmri heimildir til lánveitinga vegna þess að sjóðurinn miðar nú við markaðsverð í stað brunabótamats, hámarksupphæð láns hefur verið hækkuð í 20 milljón kr. og heimildir til leiguíbúðalána voru hækkaðar um 5 milljarða kr..

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að framangreindar breytingar séu hluti af þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa gripið til í því skyni að liðka afar stirðan íbúðamarkað.

Hækkun áætlunar um útgáfu íbúðabréfa er eðlileg í því ljósi, að mati greiningarinnar, og raunar megi ætla að útgáfan gæti orðið eitthvað meiri en þessi áætlun gefur til kynna.

Hin nýja áætlun tekur þannig ekki með í reikninginn útgáfu vegna áformaðrar fjármögnunar ÍLS á nýjum íbúðalánum annarra fjármálastofnana.

Greining telur hinsvegar hæpið að um stórar upphæðir verði að ræða í þeim lánaflokki, og ný útgáfa því tengd verður líklega að sama skapi fremur lítil það sem eftir lifir árs, þótt ÍLS hafi leyfi til að veita allt að 30 milljörðum kr. til slíkrar endurfjármögnunar á seinni hluta ársins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×