Viðskipti innlent

Höftin lama Kauphöllina

„Gjaldeyrishöftin eru högg fyrir Kauphöllina og stefna hlutabréfamarkaði í tvísýnu," segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands.

Erlendir fjárfestar eru umsvifamiklir í nokkrum stærstu félaga Kauphallarinnar og sitja þar nú fastir miðað við ströngustu skilgreiningu á lögum um gjaldeyrisviðskipti sem samþykkt voru á Alþingi í fyrrinótt.

Í stefnuyfirlýsingu Seðlabankans frá í gær segir að gjaldeyrishömlurnar verði afnumdar í áföngum og verði hömlum vegna fjármagnshreyfinga aflétt eins fljótt og aðstæður leyfi.

Þórður og fleiri heimildarmenn blaðsins telja líkur á að kauphallarfélög óski eftir afskráningu hér og telji hag sínum betur borgið á erlendum hlutabréfamarkaði. Jafnframt telur Þórður hættu á að viðskipti verði útilokuð með bréf færeysku félaganna fjögurra, sem hér eru skráð, nema með sérstakri undanþágu frá Seðlabankanum.

„Ég vona að menn finni leiðir til að koma í veg fyrir að færeysku félögin hrekist af markaðnum," segir Þórður og bætir við að hætta sé á að hömlurnar hægi fremur á aðlögun efnahagslífsins og seinki bata. Þá vonast hann til að gjaldeyrishömlurnar séu til skamms tíma, enda séu þær síst til þess fallnar að efla traust á krónunni.

Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, segir ljóst að gjaldeyrishöftin vinni tíma og skammtímatjóni kunni að hafa verið forðað vegna þess að efnahagslífið hafi ekki verið reiðubúið til að takast á við fleytingu krónunnar sem hefði mögulega falið í sér mikla hækkun vaxta og útflæði fjármagns.

„En allt veltur þetta á næstu skrefum," segir hann og kveður einu röksemdina með gjaldeyrishöftum nú vera að næstu þrír mánuðir verði notaðir til þess að bæta stöðuna og auka líkur á að fleyting krónunnar heppnist að þeim tíma loknum. „Gjaldeyrishöft hafa lamandi áhrif á atvinnulífið og skelfileg tilhugsun eigi þau að vara í lengri tíma. Þetta hlýtur að vera skammtímaráðstöfun meðan hugað er að þáttum á borð við að tryggja betur starfsgrundvöll bankanna, losun á krónustöðum erlendra spákaupmanna eða eflingu trúverðugleika Seðlabankans. Síðan verður ekki flúið að krónan lúti lögmálum framboðs og eftirspurnar."

Þá segir Ásgeir að yfirlýsing um að taka ætti upp aðildarviðræður við Evrópusambandið myndi auka líkurnar á að fleyting krónunnar heppnist. „Þá kæmist í augsýn að Myntbandalag Evrópu myndi kaupa upp krónur og væntanlega á hærra gengi en núna er."

Eins segir Ásgeir þyngra um vik að efla trú á krónunni eftir að gjaldeyrishöftum hefur verið komið á, því sú aðgerð í sjálfu sér auki vantraust á gjaldmiðlinum þar sem fjárfestar muni óttast að lokast aftur inni með óseljanlegar krónueignir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×