Viðskipti innlent

Vonbrigði með tap Straums-Burðaráss

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Á uppgjörsfundi Straums Straumur-Burðarás fjárfestingabanki kynnti uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung á vel sóttum morgunverðarfundi á Hilton Reykjavík Nordica í gær.
Á uppgjörsfundi Straums Straumur-Burðarás fjárfestingabanki kynnti uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung á vel sóttum morgunverðarfundi á Hilton Reykjavík Nordica í gær. Fréttablaðið/GVA
Tap fjárfestingabankans Straums-Burðaráss nemur 1,4 milljónum evra eftir skatt á öðrum ársfjórðungi. Upphæðin nemur 179 milljónum króna miðað við gengi í lok fjórðungsins.

Vonbrigði með mistök sem gerð voru í stöku fjárfestingaverkefni, segir forstjóri bankans. Tap fyrir skatta er mun meira, eða 20,2 milljónir evra (2,5 milljarðar króna).

Mistök í fjárfestingu á sviði eigin viðskipta (e. proprietary trading) urðu til þess að á öðrum ársfjórðungi féll til kostnaður upp á 44 milljónir evra (tæpa 5,5 milljarða króna) hjá fjárfestingarbankanum Straumi-Burðarási.

„Við gerðum mistök en höfum gripið til ráðstafana til þess að þau endurtaki sig ekki,“ segir William Fall, forstjóri Straums. „Við lentum þarna í sértækum vanda sem tekið hefur verið á.“

Tap til hluthafa Straums á öðrum ársfjórðungi nemur 2,81 milljón evra (rúmar 349 milljónir króna), en 1,37 milljóna evra (170 milljónir króna) hlutdeild minnihluta gerir að endanlegt tap verður 1,44 milljónir evra (179 milljónir króna).

Niðurstaðan er töluvert undir meðalspá greiningardeilda Landsbankans, Glitnis og Kaupþings sem hljóðar upp á 2,1 milljarðs evra hagnað. Einungis Glitnir spáði tapi, 5,2 milljónum evra.

Tap fyrir skatt nemur 20,2 milljónum evra (2,5 milljörðum króna). Inni í jákvæðri skattafærslu hefur svo áhrif tekjufærsla, einskiptisleiðrétting, upp á 10,6 milljónir evra (1,3 milljarða) vegna breytinga á lögum um söluhagnað hlutabréfa.

Stephen Jack, fjármálastjóri Straums, segir mat bankans hafa verið að leiðrétta bækurnar strax, en ný lög voru samþykkt í maí.

Arðsemi eigin fjár var 2,7 prósent á ársgrundvelli og eiginfjárhlutfall samkvæmt CAD reglum 25,4 prósent.

William Fall forstjóri segir að utan taps af eigin viðskiptum sé uppgjörið viðunandi þótt jafnmikið tap valdi vitanlega vonbrigðum. „Við töpuðum á stóðri stöðu og brenndum okkur á henni. Ég á hins vegar ekki von á frekari vandamálum á þessum vígstöðvum.

Annars staðar ganga hlutir vel og við í uppbyggingarfasa á ýmsum sviðum,“ segir hann og bendir einnig á að styrka eiginfjárstöðu bankans. Hún geri að verkum bankinn þyki ákjósanlegur til samstarfs og jafnvel sé inni í myndinn að fara í kaup eða samruna á smærra fjármálafyrirtæki.

„Við höfum augun opin fyrir tækifærum sem kunna að vera til staðar, en lengra eru þessi mál ekki komin.“

Hann segir bankann einnig vel fjármagnaðan og bendir á að lausafé nægi til að standa við skulbindingar á gjalddaga 12 mánuði fram í tímann. Þess utan séu gjalddagar á næsta ári tiltölulega léttvægir, en þá eru á gjalddaga um 263 milljónir evra (tæpir 33 milljarðar króna).

Bankinn stefnir enn á að skrá hlutabréf sín í evrum og segir Willam Fall að grannt sé fylgst með þróun þeirra mála. „Eftir á að hyggja hefði náttúrlega verið langhagkvæmast hvað verðþróun bréfa okkar að gera þetta þegar við ætluðum í fyrra.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×