Viðskipti innlent

Orkuveitan tapaði rúmum 17 milljörðum

Orkuveita Reykjavíkur tapaði 17,2 milljörðum á fyrstu þremur mánuðum þessa árs samkvæmt tilkynningu sem send hefur verið til Kauphallar Íslands. Til samanburðar var hangaðurinn 4,3 milljarðar á sama tímabili í fyrra. Óhagstæð gengisþróun skýrir niðurstöðuna alfarið að sögn Orkuveitunnar.

Tekjur fyrirtækisins jukust um 480 milljónir miðað við sömu mánuði í fyrra og var rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, 3,4 milljarðar króna samanborið við 2,6 milljarða króna á sama tímabili árið áður.

Heildareignir Orkuveitunnar í lok mars námu nærri 209 milljörðum króna en voru 191 milljarður í árslok 2007. Þá jukust heildarskuldir félagsins um 35 milljarða á tímabilinu.

„Horfur eru góðar um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur á árinu 2008. Umsvif fara vaxandi og fjárfestingar eru miklar. Stærsta einstakaverkefnið er bygging nýrrar virkjunar á Hellisheiði sem mun stórauka eigin orkuvinnslugetu fyrirtækisins, og hafa fyrstu tveir áfangar hennar þegar verið teknir í notkun," segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×