Viðskipti innlent

FT fjallar um klofninginn í Sjálfstæðisflokknum vegna ESB

„Fyrsti alvarlegi klofningurinn í Sjálfstæðisflokknum um hvort flokkurinn eigi að ganga í Evrópusambandið er kominn í ljós eftir að varaformaður flokksins braut gegn stefnu hans og sagði að þjóðin ætti að íhuga aðild núna."

Þetta segir í upphafi umfjöllunnar í blaðinu Financial Times (FT) í dag um málið. Þar er vitnað til orða Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um að aðild að ESB eigi að ræða á næstu vikum en ekki mánuðum.

FT bendir á að ummæli Þorgerðar Katrínar séu í mótsögn við skoðanir Geirs Haarde formanns Sjálfstæðisflokksins sem hefur ítrekað að aðildarviðræður við ESB séu ekki á dagskrá og að ekki eigi að ræða málið fyrr en fjármálakreppunni lýkur á Íslandi.

Fram kemur í FT að vaxandi þrýstingur sé nú frá almenningi á Íslandi um að stjórnmálamenn landsins taki upp aðildarviðræður við ESB í framhaldi af hruni bankakerfisins á Íslandi.

Bent er á skoðanakönnun þar sem fram kom að 70% þjóðarinnar séu hlynnt aðild að ESB og að vaxandi fjöldi Íslendinga telji að aðild að ESB og þar með evran hefði komið í veg fyrir kreppuna, eða að minnsta kosti dregið verulega úr áhrifum hennar.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×