Skoðun

Viljum við stærsta bílakirkjugarð í Evrópu?

Özur Lárusson skrifar um endurnýjun bifreiða.

Danir eru farnir að kalla bílaflotann sinn, stærsta bílakirkjugarð Evrópu. Þá er ekki átt við að heilu akrarnir séu undirlagðir fyrir gamla og ónýta bíla heldur eru þeir allir í umferð en bílafloti dana hefur lengi þótt úrsérgenginn. Með nýlegum reglum um vörugjöld og skráningargjöld á bílum stefnir í algjört óefni að sögn neytendafélag í Danmörku og þeirra sem starfa í bílgreininni.

Gamlir og úrsérgengnir bílar eru alltof margir í umferðinni sem bæði skapa mikla hættu fyrir vegfarendur og þá sem í þeim ferðast þar sem allir slitfletir og öryggisbúnaður er slitinn og af skornum skammti.

Þessir bílar eru með litlar sem engar mengunarvarnir og losa ótæpilega af óæskilegum loftegundum útí andrúmsloftið.

Er tekið svo stórt til orða í danska bílablaðinu Motormagasinet að það þurfi enginn að vera í vafa um að það stefni í algjört óefni þar sem ástand bílaflotans versni með degi hverjum og um ógn sé að ræða bæði gagnvart umhverfinu og umferðaröryggi.

Danska skoðunarstöðin Applus Bilsyn gerði úttekt á 500.000 bílum sem teknir voru til skoðunar er sýndi frammá hve bilanatíðni eykst með ári hverju. Svo tekið sé dæmi af bremsukerfi samkvæmt þessari rannsókn þá bilar það í 3% tilfella í bílum undir 5 ára aldri en í 30% tilfella í bílum sem eru orðnir 10 ára. Gerðar voru athugasemdir við burðarvirki bíla undir 5 ára aldri í 2% tilfella en í 31% tilfella í bílum sem náð höfðu 10 ára aldri.

Komið hafa fram hugmyndir um að hækka þær greiðslur sem bíleigendur fá þegar bílnum er skilað inn til endurvinnslu og er lagt til að sú upphæð verði ekki lægri en Dkr. 10.000,- Þannig sé komin hvati fyrir fólk að henda úrsér gengnum bílum.

Þetta eru atriðið sem stjórnvöld hér á landi ættu að hafa í huga nú þegar ýmsar hugmyndir eru á lofti um breytingar á gjaldakerfi á bílum og eldsneyti. Með því að setja óhóflegar álögur á einkabílinn leiðir það til þess að fólk hefur ekki ráð á því að endurnýja fjölskyldubílinn. Þegar talað er um fjölskyldubílinn verður líka að hafa í huga að þarfir fólks eru mismunandi, sumar fjölskyldur eru það stórar að nauðsynlegt er fyrir þær að eiga bíl sem uppfyllir kröfur um pláss sem og fólk í dreifbýli sem í mörgum tilfellum þarf að eiga öflugri bíla en þeir sem búa á mölinni. Með því að hækka vörugjöld á bílum sem fyrrgreindir hópar þurfa að eiga er verið að mismuna fólki.

Einnig ber að varast það að hafa slík vörugjaldakerfi í mörgum þrepum. Í dag eru meginflokkarnir tveir þe. 30 og 45% vörugjöld sem leggjast ofan á innkaupsverð bifreiðar. Þrátt fyrir það hafa margir séð sér leik á borði og flutt inn bíla á röngum reikningum og komist upp með það. Of margir flokkar vörugjalda og háar álögur ýta undir það að óprúttnir aðilar nýti sér göt í kerfinu, ásamt því að skapa óþarfa vinnu og kostnað bæði fyrir opinberar stofnanir sem og þau fyrirtæki sem stunda innflutning á bifreiðum.

Umbuna á fólki í þéttbýli sem ferðast innanbæjar á svokölluðum visthæfum bílum eins og Reykjavíkurborg gerir með fríum bílastæðum fyrir bíla sem uppfylla ákveðnar kröfur um eldneytiseyðslu og losun á Co2. Slíkar bifreiðar ættu að vera án vörugjalda en það yrði til þess að fólk í þéttbýli myndi skoða þann kost sem innanbæjarbíl eða sem annan bíl á heimili.

Meðalaldur einkabílsins hér á landi er 9,5 ár sem er mikið og ekki viljum við lenda í þeirri stöðu eins og stefnir í hjá dönum eða algjört óefni.

Höfundur er framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.








Skoðun

Sjá meira


×