Viðskipti innlent

Straumur tapaði 27 milljörðum kr. í október

Tap Straums á þriðja ársfjórðungi nam 145,6 milljónum evra eftir skatta eða rúmum 26 milljörðum kr. Samkvæmt tilkynningu frá félaginu varð tapið svo í október rúmlega 150 miljónir evra eða rúmlega 27 milljarðar kr. eftir að bankakerfi landsins hrundi.

Tap Straums á fyrstu níu mánuðum ársins eftir skatta nam 124,7milljónum evra . Eiginfjárhlutfall Straums var 17,6% þann 31. október 2008. Eigið fé bankans var meira en sem nemur reglubundinni tvöfaldri lágmarksupphæð eiginfjár. Eiginfjárþáttur A var 15,6 %.

Í tilkynningu frá félaginu segir að lausafjárstaðan sé viðunandi miðað við erfiðar markaðsaðstæður. Bankinn vinnur að því að tryggja lausafjárstöðu sína til meðallangs tíma.

"Markaðsumhverfi á fjármálamörkuðum hefur hefur einkennst af vaxandi erfiðleikum síðan í júní 2007. Fjármálakreppan jókst á þriðja ársfjórðungi 2008 og í upphafi fjórða ársfjórðungs urðum við vitni að miklu hruni, einkum á Íslandi," segir William Fall forstjóri Straums.

„Í lok september og í byrjun október tók Fjármálaeftirlitið við stjórn þriggja stærstu viðskiptabankanna á Íslandi. Fyrir vikið lokaðist gjaldeyrismarkaðurinn svotil alveg. Afleiðingar þessara atburða voru þær að alþjóðasamfélagið missti trú á íslenska fjármálakerfið. Þessi þróun hefur haft neikvæð áhrif á flestar fjármálastofnanir, þar á meðal Straum. Engu að síður þraukaði bankinn í þessu fárviðri og við erum nú í þeirri aðstöðu að geta horft fram á veginn."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×