Viðskipti innlent

Óvissan kom í veg fyrir stýrivaxtaspá Seðlabankans

Arnór Sighvatsson aðalhagfræðingur Seðlabankans segir bankann ekki hafa treyst sér til að leggja fram stýrivaxtaspá í síðustu Peningamálum vegna þess óvissuástands sem ríkti við spágerðina.

Að mati Arnórs er ljóst að spá Seðlabankans gerir ráð fyrir hörðum samdrætti en samanburður við aðrar bankakreppur gefur góða von um jákvæða lokaútkomu þó stærðargráða áfallsins leiði væntanlega til örlítið lengri aðlögunar.

Þetta kom fram í pallborðsumræðunum á fundi Viðskiptaráðs í morgun. Fjallað er um umræðurnar á vefsíðu ráðsins. Þar segir að Ingólfur Bender forstöðumaður greiningar Glitnis telur yfirstandandi niðursveiflu verða djúpa og langvarandi einkum vegna þess að skilyrði á erlendum mörkuðum eru afar erfið nú um mundir.

Sagði Ingólfur ástandið verða dökkt næstu 2-3 árin, en mikilvægt væri að hafa í huga að kreppur ættu sér upphaf og endi. Nú væri mikilvægast að bregðast ekki við með eingangrun og alls ekki yfirskjóta í nýju regluverki. Hlúa þarf að menntun, frumkvæði og þeim drifkrafti sem íslenskt atvinnulíf hefur skapað með sér.

Gylfi Zoega prófessor taldi það höfuðatriði að horfa fram á veginn og leita lausna í stað þess að slást innbyrðis. Til að finna lausnina þarf að skilja aðstæðurnar. Hafa þarf í huga að kreppur eru reglulegur viðburður í flestum hagkerfum og því eru aðstæðurnar hér ekkert einsdæmi. Gylfi sagði að passa þyrfti upp á að sagan endurtaki sig ekki og að nú væri algert forgangsatrðiði að forða einstaklingum frá erfiðum persónulegum áföllum og halda atvinnulífinu gangandi.

Yngvi Örn Kristinsson forstöðmaður hagfræðideildar Landsbankans sagði verkefnin afar skýr; endurreisa þyrfti bankakerfið, opna gjaldeyrismarkaði, takast á við greiðsluvanda heimila og fyrirtækja, bregðast við aukinni skuldasöfnun ríkissjóðs og endurskoða peningamálastefnuna. Að hans mati væri alls ekki unnt að gera kröfu til þess að einkafyrirtæki á samkeppnismörkuðum stýri efnahagsmálum þjóðarinnar, til þess væri ríkissjóður og Seðlabankinn.

Taldi hann Seðlabankann hafa ráðið yfir nægum verkfærum til að bregðast við með afgerandi hætti og nefndi hann þar vextina, lausafjárreglur og bindiskylduna. Það hefði því ekki verið nóg af hálfu Seðlabankans að beita viðvörunum um alvarleika ástandsins. Hann hefði betur beitt aðgerðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×