Innlent

„Svartur dagur í sögu Íslands“

„Þetta er svartur dagur í sögu Íslands," sagði Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins um nýjustu vendingar í bankamálum. Hann gagnrýnir ríkisstjórnina harðlega fyrir aðgerðaleysi og bendir á að fjármálakreppan hafi verið hafin fyrir ári. Seðlabankinn hefði hins vegar ekki verið styrktur nægilega og vöxtum hans haldið í himinhæðum.

Í samtali við fréttamann Stöðvar 2 sagði Guðni að hann gagnrýndi ekki aðgerðir dagsins við aðstæðurnar sem væru uppi nú. Þetta væri neyðarúrræði. Nú væri langmikilvægast að róa þjóðina og það þyrfti þjóðstjórn til að taka á málum. Mikivægt væri að sparifjáreigendur fengju merki um að staða þeirra væri tryggð. Þá sagði Guðni stöðuna mikið áfall fyrir eigendur Glitnis. „Nú þurfa menn að bretta upp ermar og taka á," sagði Guðni.









MYND/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri - grænna, sagði ekki öll kurl komin til grafar í málinu en þjóðnýting Glitnis hefði verið illskásti kosturinn við núverandi aðstæður.

Menn yrðu að draga lærdóm af þeirri aðgerðarleysis- og einkavæðingarstefnu sem væri komin í þrot og endurskoða þyrfti lög og reglur um starfsemi fjármálafyrirtækja. Skýra þyrfti lög og reglur til þess að koma í veg fyrir að skattgreiðendur borgi brúsann í því fjármálafylleríi sem gengið hefði yfir.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×