Viðskipti innlent

Sparisjóðurinn aftur í efsta sæti ánægjuvogarinnar í flokki banka

Sparisjóðurinn var í efsta sæti í flokki banka og sparisjóða í áttunda skiptið á níu árum í hinni svokölluðu Íslensku ánægjuvog sem Capacent Gallup sér um. Þetta er í níunda sinn sem niðurstöður ánægjuvogarinnar eru kynntar og var úrtakið í könnuninni 28.500 manns.

Í flokki banka og sparisjóða á fyrirtækjamarkaði var Landsbankinn efstur og í flokki tryggingafélaga var það Tryggingamiðstöðin. Félagið hefur alltaf verið í fyrsta sæti í þessum flokki ef frá er talið árið 2004 þegar VÍS var í fyrsta sæti.

Í flokki farsímafyrirtækja var Síminn í fyrsta sæti og hjá netveitum var keppinauturinn Vodafone í fyrsta sæti og velti þar með Hive úr sessi. Í flokki gosdrykkjaframleiðenda var Ölgerðin Egill Skallagrímsson í fyrsta sæti og Hitaveita Suðurnesja varð hlutskörpust í könnun á ánægju með rafveitur. Þetta er sjötta árið í röð sem HS er efst í þessum flokki.

Í flokki olíufélaga varð Olís í fyrsta sæti og í flokki byggingavöruverslana varð BYKO hlutskarpast.

Íslenska ánægjuvogin er félag, sem Samtök iðnaðarins, Stjórnvísi og Capacent Gallup standa að og kemur að Evrópsku ánægjuvoginni. Markmið verkefnisins er að láta fyrirtækjum í té samræmdar mælingar á ánægju viðskiptavina en einnig nokkrum öðrum þáttum, sem hafa áhrif á hana, s.s. ímynd, mat á gæðum, og tryggð viðskiptavina.

Mælingin er talin mjög mikilvæg þar sem rannsóknir hafa leitt í ljós að því ánægðari sem viðskiptavinir fyrirtækis eru því betri afkomu getur það gert sér vonir um, eins og segir í tilkynningu Capacent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×