Viðskipti innlent

Glitnir í jarðorkuverkefni á Indlandi

Glitnir hefur sótt um að opna útibú á Indlandi. Jafnhliða þessu hefur Glitnir gert samstarfssamning við LNJ Bhilwara Group um byggingu á jarðhitaorkuverum á Indlandi og Nepal.

Í tilkynningu um málið frá Glitni segir m.a. að bankinn og LNJ Bhilwara muni stofna sameiginlegt fyrirtæki á Indlandi af þessum sökum þar sem eignarhlutur indverska félagsins yrði 60% á móti 40% eignarhlut Glitnis.

Lárus Welding forstjóri Glitnis segir að um mikilvægt samstarf sé að ræða við LNJ Bhilwara. Á Indlandi séu margir möguleikar til staðar á sviði jarðorkuvinnslu.

Fram kemur í tilkynningunni að Indland sé spennandi markaður fyrir Glitni sérstaklega á sviði sjávarútvegs og orkuvinnslu.

LNJ Bhilwara er stórt fyrirtæki á indverska vísu með starfsemi á ýmsum sviðum þar á meðal í fataiðnaði, raftækjaframleiðslu og raforkuvinnslu. Alls starfa 25.000 manns hjá fyrirtækinu og velta´þess á síðasta ári nam rúmlega 46 milljörðum kr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×