Erlent

Dæmd fyrir að selja boli til stuðnings hryðjuverkasamtökum

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. MYND/AP

Eystri Landsréttur í Danmörku sneri í dag við sýknudómi borgarréttar í Kaupmannahöfn yfir ungmennum sem ákærð voru fyrir stuðning við hryðjuverkasamtök með bolasölu.

Alls voru sjö manns sem tengdust fyrirtækinu Fighters and Lovers ákærðir fyrir að selja boli til stuðnings skæruliðasamtökunum FARC í Kólumbíu og PFLP í Palestínu. Alls seldi félagið boli fyrir um 25 þúsund danskar krónur, jafnvirði um 450 þúsund króna, til stuðnings samtökunum.

Borgarréttur hafði sýknað fólkið á þeim grundvelli að ákæruvaldið hefði ekki sýnt fram á að samtökin tvö væru hryðjuverkasamtök þrátt fyrir að þau bæði væru á lista ESB yfir slík samtök. Fimm af sjö dómurum við Eystri Landsrétt komust hins vegar að hinu gagnstæða og voru sex af hinum ákærðu sakfelldir.

Tveir fengu sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi en hinir skilorðsbundna dóma. Auk þess var heimasíðu fyrirtækisins lokað og bolalager þess gerður upptækur með dómnum.

Sakborningar í málinu hyggjast sækja um leyfi til þess að fara með málið fyrir Hæstarétt Danmerkur en ef því verður hafnað munu sakborningar leita til Mannréttindadómstóls Evrópu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×