Viðskipti innlent

Greining Glitnis væntir óbreyttra stýrivaxta

Greining Glitnis segir að hámarki stýravaxta sé nú náð í 15,5% og væntir þess að bankastjórn Seðlabankans haldi vöxtum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi 3. júlí nk.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Glitnis. Þar segir að á sama tíma og verðbólguþrýstingur hefur farið vaxandi innanlands sem erlendis hafa hagvaxtarhorfur versnað. Nýlegar landsframleiðslutölur Hagstofunnar fyrir fyrsta ársfjórðung benda til hraðari kólnunar hagkerfisins en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í síðustu þjóðhagsspá. Fjöldi vísbendinga bendir til að frekar hafi hægt á vexti innlendrar eftirspurnar á öðrum ársfjórðungi. Merki þess sjást meðal annars í minni veltu á húsnæðismarkaði, lækkun húsnæðisverðs, fækkun nýskráninga bifreiða auk þess sem kaupmáttur launa hefur dregist saman.

Greiningin spáir því að Seðlabankinn hefji vaxtalækkunarferli sitt í nóvember með 0,50 prósentustiga lækkun vaxta og að stýrivextir verði 15% í árslok. Þá er reiknað með örum vaxtalækkunum á næsta ári eftir því sem hjól efnahagslífsins fara að snúast hægar, einkaneysla dregst saman, bati verður á ytra jafnvægi þjóðarbúsins og dregur úr verðbólguþrýstingi, og að vextir standi í 8% í árslok 2009.

„Færa má gild rök fyrir því að rétt væri fyrir Seðlabankann að lækka vexti fyrr og hraðar en spá okkar gerir ráð fyrir, þar sem stýrivextir Seðlabankans bíta mun fastar nú eftir að aðgengi að erlendu lánsfé skertist og vísbendingar eru um að hagkerfið kólni nú mjög hratt," segir í Morgunkorni greiningar Glitnis

„Auk þess myndu lækkandi vextir vart grafa meira undan gengi krónu en orðið er, enda vaxtamunurinn við útlönd lítt virkur þessa dagana. Með því að halda vöxtum svona háum lengi er bankinn í raun að bregðast við neikvæðum ytri skilyrðum þjóðarbúsins, þ.e. þáttum sem stýrivextir bankans bíta ekki á og með aðgerðum sínum keyrir hann hagkerfið niður í óþarflega mikla lægð. Við teljum þó að Seðlabankamenn líti þróunina öðrum augum en við og að vextir verði því líklega háir lengur en heppilegt væri."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×