Viðskipti innlent

SPRON og Exista lækkuðu mest í dag

Guðmundur Hauksson er forstjóri SPRON.
Guðmundur Hauksson er forstjóri SPRON. MYND/GVA

SPRON og Exista lækkuðu um á sjötta prósent í viðskiptum í Kauphöll Íslands. Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,5 prósent og stendur í 4.449 stigum.

Almennt má segja að rautt hafi verið um að litast í Kauphöllinni í dag. Nokkur félög hækkuðu þó, Alfesca þeirra mest eða um 2,26 prósent og Össur um 1,08 prósent.

Gengi hlutabréfa í SPRON lækkaði hins vegar mest, eða um 5,76 prósent en þar á eftir kom Exista með 5,32 prósenta lækkun. Þá lækkaði gengi bréfa í Bakkavör um 3,13 prósent og bréf í 365 hf. um 2,52 prósent.

Gengi krónunnar veiktist eftir mikla hækkun í gær. Nam hækkun gengisvísitölunnar 0,81 prósenti og veiktist gengi krónunnar sem því nemur. Evran kostar nú 126 krónur, pundið 159 krónur, dollarinn um 80 krónur og danska krónan tæpar 17 krónur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×