Viðskipti innlent

Ekki rétt að ríkisstjórnin hafi setið með hendur í skauti

MYND/Heiða

Greiningardeild Glitns segir gagnrýni stjórnarandstöðunnar um aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum orðum aukna. Í Morgunkorni Glitnis er minnt á að Alþingi komi saman til fundar í dag þar sem efnahagsmálin verði rædd.

Bendir greiningardeildin á að það er rýnt sé í baksýnisspegilinn komi á daginn að stjórnvöld hafi vissulega brugðist við breyttum aðstæðum í hagkerfinu með ýmsum hætti undanfarna mánuði. Þrátt fyrir að heimild ríkisins til 500 milljarða króna lántöku hafi ekki verið fullnýtt hafi gjaldeyrisforðinn verið aukinn með útgáfu víxla í erlendri mynt í sumar. Þá hafi á síðustu mánuðum verið gefin út skuldabréf fyrir 75 milljarða króna.

„Einnig hefur Seðlabankinn rýmkað reglur um veð og gengið inn í samstarf við ESB og EFTA um varnir gegn fjármálaóstöðugleika. Loks hafa stjórnvöld einnig kynnt umfangsmiklar aðgerðir sem ætlað er að sporna gegn kólnun á íbúðamarkaði. Þegar þetta er tínt saman kemur í ljós að stjórnvöld hafa vissulega brugðist við með ýmsum hætti undanfarna mánuði. Hinsvegar er ótímabært að leggja hendur í skaut heldur þarf að halda áfram á sömu braut á næstu mánuðum í samvinnu við sem flesta aðila atvinnulífsins og vinnumarkaðar," segir greindingardeild Glitnis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×