Viðskipti innlent

Samkomulag um yfirtöku Árvakurs á Fréttablaðinu stendur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ari Edwald og Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnendur 365.
Ari Edwald og Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnendur 365.

Það hefur enginn stefnubreyting orðið af hálfu 365 varðandi það samkomulag sem gert var um að Fréttablaðið renni inn í Árvakur og 365 eignist hlut í félaginu. Þetta segir Ari Edwald, forstjóri 365, í samtali við Vísi.

Á forsíðu Morgunblaðsins er því slegið fram að aðaleigendur 365 hafi ekki lengur áhuga á að standa við samninginn um að Fréttablaðið sameinist Árvakri. Þetta hafi orðið ljóst eftir að Rauðsól, félag í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, keypti fjölmiðlahluta 365 út úr félaginu.

Ari segir það vera mjög mikilvægt fyrir rekstur félaganna að samruninn nái fram að ganga. Hann bendir þó á að samkomulagið sé háð hluthafafundi og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Einar Sigurðsson, forstjóri Árvakurs, tekur í sama streng. Hann segir að sú hugmynd hafi ekki verið rædd að samrunanum yrði rift og ekkert bendi til annars en að hann gangi eftir. „Þessi samningur er til staðar og fjallar um það að Árvakur eignist Fréttablaðið og við greiðum fyrir það með yfirtöku skulda með útgáfu nýs hlutafjár og það hefur ekkert breyst í því," segir Einar. Hann segir að verið sé að vinna að því í fyrirtækinu að þessi samruni gangi í gegn.

Starfsemi EFG og Senu vanmetin

Ari segir að í umræðunni um kaup Rauðsólar á fjölmiðlahluta 365 hafi aðrir hlutar í rekstri félagsins verið vanmetnir. Mörg félög sem starfi á Íslandi séu jafn skuldsett eða jafnvel skuldsettari en EFG og Sena. Það sé mikill misskilningur að til standi að sigla rekstri þeirra í þrot. Hann bendir á að fyrir helgi hafi verið samið um kaup Senu á verslunum Skífunnar og það sé fremur til vitnis um frekari skuldbindingar gagnvart þeim rekstri en að til standi að sigla fyrirtækjunum í þrot.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×