Viðskipti innlent

Breyta flugvélum sínum fyrir 2 milljarða

Breki Logason skrifar
Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair.
Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair.

Flugfarþegar Icelandair sem flugu til og frá London um páskana ráku margir hverjir upp stór augu þegar inn í vélina var komið. Glæný leðursæti og sjónvarpsskjáir í hverju sæti létu mörgum farþeganum líða líkt og fína fólkinu á fyrsta farrými. Um er að ræða 2 milljarða króna yfirhalningu á 11 vélum félagsins.

„Fyrsta vélin byrjaði að fljúga nú fyrir páska og hefur verið mikil ánægja með þetta," segir Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair en fyrstu ferðirnar verða notaðar til þess að sjá hvað virkar og hvað ekki. Breyta á ellefu vélum félagsins og er önnur vél er nú þegar kominn í yfirhalningu.

Svona líta nýju sætin í vélum Icelandair út.

„Við skiptum alveg um innréttingar og nú eru komnir nýir litir, leðursæti og meira sætabil en hefur verið. Einnig er kominn skjár í hvert sæti sem er í raun stórt tölvukerfi með aðgang að gríðarlegum fjölda af efni. Bæði tónlist, kvikmyndum, þáttum og fleira í þeim dúr," segir Guðjón.

Allur pakkinn kostar um tvo milljarða að sögn Guðjóns en breytingin er hugsuð til margra ára en allar vélarnar verða tilbúnar á þessu ári. „Þegar við erum að fljúga sérstaklega á löngum leiðum sem eru kannski hátt í 7-8 tímar þá erum við sannfærðir um að afþreying skipti miklu máli. Þetta er því klárlega mikið samkeppnisforskot."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×