Viðskipti innlent

Veltan á íbúðamarkaðinum 70% minni en í fyrra

Velta á íbúðamarkaði hefur dregist saman um 70% á milli ára. Í ágúst voru gerðir samtals 251 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði fyrir samtals 7,7 milljarða kr. en á sama tíma fyrir ári síðan voru kaupsamningar 830 talsins og veltan nam tæplega 25 milljörðum kr.

 

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þrátt fyrir litla veltu hafa umsvif á íbúðamarkaði aukist lítillega frá byrjun sumars. Síðustu vikuna í ágústmánuði voru gerðir 82 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði en aðra vikuna í júní voru eingöngu gerðir 33 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði.

 

Samkvæmt mælingum Fasteignamats ríkisins hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkað um 0,3% á þessu ári. Samkvæmt mælingum Hagstofunnar hefur íbúðaverð á landinu öllu lækkað um 0,2% á sama tímabili.

 

Greining Glitnis spáir því að nafnverð íbúðarhúsnæðis lækki um 4% á þessu ári, sem er umtalsverð lækkun í sögulegum samanburði en vert er að hafa í huga að til engrar nafnverðslækkunar kom í síðustu niðursveiflu á íbúðamarkaði hér á landi árið 2001.

 

Í alþjóðlegum samanburði er 4% lækkun þó ekki mikil um þessar mundir en hraðrar kólnunar hefur gætt á húsnæðismarkaði í Bandaríkjunum og Bretlandi og húsnæðisverð lækkað mikið síðustu mánuði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×