Viðskipti innlent

Hundrað milljóna króna hagnaður N1 á fyrri helmingi ársins

Bjarni Benediktsson er stjórnarformaður N1.
Bjarni Benediktsson er stjórnarformaður N1. MYND/Vilhelm

N1, stærsta olíufélag landsins, hagnaðist um tæpar 100 milljónir króna á fyrri helmingi ársins samanborið við 840 milljónir á sama tíma í fyrra.

Fram kemur í hálffimmfréttum Kaupþings að breyting á milli ára skýrist aðallega af hækkun fjármagnsgjalda sem aukist um 2,1 milljarða á milli ára. „Salan nam 19,7 milljörðum króna og jókst um tæp fjörutíu prósent. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 1.352 milljónum króna sem var sjöfalt hærri upphæð en á sama tíma í fyrra. Forsvarsmenn félagsins benda á í fréttatilkynningu að kjarnastarfsemi félagsins hafi gengið vel á árinu en reikna þó með því að afkoma ársins verði lakari en á árinu 2007," segir í hálffimmfréttum Kaupþings.

Greiningardeild Kaupþings segir að þegar rýnt sé í reikninga félagsins komi í ljós að kennitölur á borð við meðalálagningu og framlegð í hlutfalli af vörusölu fari hækkandi. „Meðalálagning (sala/kostnaðarverð seldra vara) var 33,1% á tímabilinu samanborið við 29,8% á fyrri hluta ársins 2007 og um 31% allt árið 2007. Framlegð í hlutfalli af vörusölu hækkar um tvö prósentustig, fer úr 22,9% í 24,9%. Félagið tilgreinir þó ekki hvernig vörusala skiptist eftir vöruflokkum og því er ekki hægt að álykta hvernig álagning eftir einstökum flokkum er að þróast," segir í pistli greiningardeildarinnar.

N1 varð til við samruna Olíufélagsins Esso og Bílanausts á síðasta ári og er alfarið í eigu eignarhaldsfélagsins BNT hf.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×