Viðskipti innlent

Fyrstu viðbrögð erlendra aðila jákvæð

MYND/GVA
Beat Siegenthaler sérfræðingur hjá TD Securities í London, en fyrirtækið hefur verið umfangsmikið í viðskiptum við Ísland, er nokkuð jákvæður á aðgerðir Íslendinga er varða lokun á útflæði gjaldeyris. Hann segist búast við því að algjör lokun standi stutt yfir og að á næstu vikum og mánuðum verði krónubréfaeigendum gert kleift að losna úr stöðum sínum. Þetta kemur fram í daglegu fréttabréfi Siegenthalers sem birt er á heimasíðu TD Securities.

„Okkur skilst að nýju reglurnar séu settar í samvinnu við Alþóðagjaldeyrissjóðinn og að til standi að létta á þessum höftum yfir ákveðið tímabil. Lögin sem samþykkt voru í gærkvöldi gera Íslendingum kleift að loka á viðskiptin í tvö ár en við teljum að létt verði á höftunum mun fyrr. Í hnotskurn eru íslensk stjórnvöld að reyna að koma á fljótandi gjaldeyrisskiptamarkaði og reyna finna út jafnvægisgengi án þess að útlendingar losi sig úr stöðum sínum á sama tíma," segir Siegenthaler en hann segir vandamálið vera hvernig hægt verði að vinda ofan af þeim 400 milljörðum sem útlendingar eiga í ríkisskuldabréfum hér á landi og þeim 250 milljörðum sem þessir aðilar eiga í svokölluðum krónubréfum.

„Við búumst við því að stjórnvöld heimili útlendingum að skipta út krónum fyrir evrur í vaxandi mæli á næstu vikum og mánuðum," segir Beat Siegenthaler að lokum en bendir á að í nánustu framtíð sitji útlendingar uppi með bréfin sín hér á landi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×