Viðskipti innlent

Vilja miða við sölugengi kröfuhafa

Hans A. Hjartarson.
Hans A. Hjartarson.

„Eftir breytinguna getur viðskiptavinur okkar greitt upp lánið nánast fyrirvaralaust en áður þurfti að bíða í allt að sólarhring eftir viðmiðunargengi frá Seðlabankanum," segir Hans A. Hjartarson, sérfræðingur hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum, um skilmálabreytingar sem bankinn gerir kröfu um að viðskiptavinir hans, sem vilja frysta afborganir lána í erlendri mynt, undirgangist.

Breytingin gerir ráð fyrir að miðað sé við sölugengi kröfuhafa en Hans segir að á meðan gjaldeyrishöft ríki á Íslandi sé ekki annað hægt en að miða við gengi Seðlabankans. Hann segir skilmálabreytinguna haldast eftir að gjaldeyrishöftum verður lyft.

„Við erum ekki að fara að selja kröfurnar en þar fyrir utan eru þær væntanlega verðlausar, eins og staðan er í dag," segir Hans. Hann útilokar þó ekki að bréfin verði seld síðar. „Þessi bréf eru framseljanleg og fólk skrifaði upp á það. En kröfuhafi, hver sem það verður, mun alltaf verða í samkeppni um besta mögulega gengið," segir Hans.

Hans segir bankann ekki vera að nýta sér neyð fólks. Nánast allir viðskiptavinir bankans séu að sækja um skilmálabreytingar á lánum sínum. „Við erum ekki viðskiptabanki og sjáum því viðskiptavini okkar sjaldan. Því er þetta líklegast eina tækifærið fyrir bankann að betrumbæta skilmála lánanna með hagsmuni allra í fyrirrúmi," segir Hans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×