Viðskipti erlent

Misvísandi upplýsingar um stórbyggingu Landic í Árósum

Börsen.dk birtir í dag frétt undir fyrirsögninni "Landic: Engin áform um að hætta við háhýsi í Árósum" en þar er átt við 142 metra háa byggingu sem ber heitið Lighthouse og á að lýsa upp borgina.

Áður hafði komið fram í blaðinu Århus Stiftstidende að Landic Property hefði ekki getu lengur til að standa að þessum byggingarframkvæmdum.

Fréttin í Århus Stiftstidende kemur Michael Sheikh forstjóra Landic á óvart og hann segir að félagið hafi vissulega ekki hætt við þessi byggingaráform. "Það verður tilkynnt um framvindu málsins í lok þessa mánaðar eins og alltaf stóð til samkvæmt samkomulagi við borgaryfirvöld," segir Sheikh í samtali við börsen.dk.

Samkvæmt Århus Stiftstidende ætlar Landic í staðinn fyrir Lighthouse að fara fyrst í minni framkvæmdir tengdar nýju hafnarsvæði í Árósum.

Sheikh undrar sig á því hvaðan þær upplýsingar séu komnar því þær séu það vissulega ekki frá Landic. "Við höfum ekki tekið ákvörðun um þetta," segir Sheikh og undirstrikar að það séu Landic og borgaryfirvöld í sameiningu sem ákveði framhald málsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×