Viðskipti innlent

Tap Milestone á falli Carnegie rúmlega 2 milljarðar kr.

Móðurfélagið á bakvið Carnegie bankann verður leyst upp í framhaldi af því að sænska ríkið hefur yfirtekið bankann. Líklegt tap Milestone á falli Carnegie er rúmlega 2 milljarðar kr. þar sem hlutabréfin í bankanum eru nú talin verðlaus.

Samkvæmt frétt í Berlingske Tidende var verðmatið á Carnegie 1,4 milljarðar sænskra kr. þegar fjármálaeftirlit Svíþjóðar svipti Carnegie bankaleyfi og sænska ríkið yfirtók hann svo í framhaldinu. Milestone átti, í gegnum Moderna Finance, 10% í Carnegie og ef það er orðið verðlaus eign er tap Milestone tæplega 2,4 milljarðar kr..

Tapið er í raun mun meira því matið á Carnegie var 13,8 milljarðar sænskra kr. er það náði hámarki árið 2006. Og þegar Milestone hóf að byggja stöðu sína í Carnegie fyrir ári síðan var matið um 10 milljarðar sænskra kr.. Þegar kaup Milestone í Carnegie náðu hámarki í ár var hlutur þeirra rúmlega 17%.

Búið er að taka Carnegie úr sænsku kauphöllinni og verða engin viðskipti með bréf félagsins í bráð eins og það er orðað í tilkynningu. Jafnframt segir að stjórn bankans muni vinna að uppgjöri og meta eigur bankans áður en móðurfélagið verður leyst upp.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×