Viðskipti erlent

Carnegie missir bankaleyfið

Fjármálaeftirlit Svíþjóðar hefur ákveðið að afturkalla bankaleyfi Carnegie fjárfestingarbankans. Þetta var kynnt á blaðamannafundi fyrir stundu. Sem kunnugt er af fréttum á Milestone, félag Karls Wernerssonar og fjölskyldu, 10 prósent í Carnegie í gegnum Moderna Finance.

Í frétt um málið á vefsíðu Dagens Industri kemur fram að samhliða þessu muni Lánastofnun sænska ríkisins, Riksgälden, taka yfir 5 milljarða sænskra króna neyðarlán sem seðlabanki Svíþjóðar hafði veitt Carnegie.

Raunar höfðu sænsk stjórnvöld ákveðið í morgun að Riksgälden tæki yfir fyrrgreint lán þar sem talið var að fjármálaeftirlitið myndi svipta Carnegie bankaleyfi sínu á fundi nú í hádeginu.

Í framhaldi af þessu hefur ríkissjóður Svíþjóðar tekið við rekstri Carnegie og því heldur venjuleg starfsemi bankans áfram. Skipa á nýja stjórn fyrir bankann hið fyrsta.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×