Viðskipti innlent

Svört skýrsla Bear Stearns eftir Íslandsheimsókn

Nokkru eftir að fulltrúar fjögurra vogunarsjóða heimsóttu Ísland ásamt þremur mönnum frá fjárfestingarbankanum Bear Stearns gaf greining bankans út svarta skýrslu um íslenska markaðinn.

Skýrsla þessi er sett upp sem samanburður á Íslandi og Kasakstan þar sem Ísland kemur mjög illa út úr samanburðinum. Kasakstan er helst þekkt á Vesturlöndum sem heimkynni Borats, persónu sem leikarinn Ali G gerði heimsfræga í kvikmynd fyrir nokkrum misserum.

Skýrslan er dagsett þann 29. febrúar. Þar er greint frá því að löndin séu sambærileg að því leyti að erlent lánsfé hafi blásið út lánsfjármarkaðinn innanlands með tilheyrandi vexti í verslunargeiranum, auknum innflutningi, auknum viðskiptahalla og hækkandi fasteignaverði.

Síðan er greint frá því að skuldatryggingarálag (CDS) banka í Kasakstan sé orðið á bilinu 500 til 800 punktar á meðan íslensku bankarnir séu með 240 punkta álag. Síðan mælir Bear Stearns með því að fjárfestar selji fimm ára CDS í bönkum Kasakstan beint eða þá gegn fimm ára CDS á Íslandi.

Og ástæðan fyrir þessari ráðleggingu greiningar Bear Stearns er að áhættan á gjaldþroti bankanna á Íslandi sé margföld á við bankana í Kasakstan! Greiningin segir að gjaldþrot íslensks banka myndi þýða um 75 til 100 prósenta aukningu á skuldum hins opinbera í kjölfar þess að ríkisstjórnin þyrfti að bjarga málinu en að í Kasakstan myndi slíkt aðeins þýða tæplega 20 prósenta aukningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×