Viðskipti innlent

FME rannsakar vogunarsjóði og Kaupþing íhugar að kæra Bear Stearns

Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Viðskiptablaðið Financial Times segir í dag að Fjármálaeftirlitið sé komið af stað með opinbera rannsókn á því hvort alþjóðlegir vogunarsjóðir hafi ráðist á krónuna og fellt þannig gengi hennar.

Samhliða þessu segir blaðið að Kaupþing íhugi að höfða mál gegn Bear Stearns fjárfestingabankanum fyrir hlutverk hans í heimsókn hóps forstöðumanna vogunarsjóða til Íslands í janúar síðast liðnum.

Að sögn blaðsins sýnir þetta tvennt vaxandi áhyggjur Íslendinga af meintu hlutverki alþjóðlegra fjárfesta í að veikja krónuna og hlutabréfamarkaðinn í landinu.

Jónas Sigurgeirsson upplýsingafulltrúi Kaupþings staðfesti í samtali við Vísi í morgun að bankinn væri að skoða möguleika á málshöfðun gegn Bear Stearns. Yrði málið skýrt frekar af þeirra hálfu seinna í dag.

Hvað hugsanlega kæru Kaupþings á hendur Bear Stearns varðar segir Financial Times að þar sé um hugsanlega misnotkun bankans á markaðinum að ræða en þrír fulltrúar frá Bear Stearns komu til landsins eftir áramótin ásamt fulltrúum frá fjórum vogunarsjóðum.

Í blaðinu kemur fram að ef Kaupþing kærir muni bankinn fá aðgang að tölvupóstum og símtölum milli Bear Stearns og vogunarsjóðanna. Sjóðirnir fjórir eru DA Capital Europe, King Street, Merill Lynch GSRG og Sandelman Partners.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×