Skoðun

Kreppan, frjálshyggjan og framtíðin

Víða um lönd velta menn því nú fyrir sér hvort fjármálakreppan mikla sé frjálshyggjunni að kenna. Málsmetandi menn segja að gengið hafi verið of langt í að draga úr ríkis-„afskiptum" af fjármálamarkaðnum vestanhafs, hann gerður of „frjáls". Einstaka „frjáls"-hyggjumaður maldar í móinn og segir að vandinn stafi af því að markaðurinn hafi ekki verið nógu „frjáls".

En mér er spurn: Hvers vegna verður þessi djúpa og alvarlega kreppa nú eftir þrjátíu ára frjálshyggjuvæðingu víða um lönd? Af hverju voru Vesturlönd að heita kreppulaus á ríkis-„afskipta"-árunum 1945-1980? Af hverju urðu miklar og alvarlegar kreppur á bandaríska fjármálamarkaðnum á árunum fyrir 1912, þegar ríkið skipti sér nákvæmlega ekkert af honum? Mikið hrun varð á fjármálamarkaðnum ameríska árið 1907 og kalla Kanar það „the panic of 1907".





Bankakreppan íslenska

Víkur nú sögunni austur og norður á bóginn, að íslensku bankakreppunni sem nú ógnar framtíð þjóðarinnar. Það þótt íslenski markaðurinn sé nú „frjálsari" en nokkru sinni fyrr. Ekki fór fyrir kreppum á ríkis-„afskipta"-árunum, ekki einu sinni á hinum vondu haftaárum. Við má bæta að ég tel frjálshyggju-mennskuna eiga mikla sök á kreppunni, Ísland er kannski ekki yfirgengilega markaðsvætt en allt of margir Íslendingar eru „frjálshyggnir" um of. Margir af markaðsgerendunum íslensku hafa verið heilaþvegnir af frjálshyggju í viðskiptaháskólum, jafnt hérlendum sem erlendum.

Kaupsýslumenn þessir virðast hafa trúað í blindni þeim boðskap frjálshygguhagfræðinnar að fyrirtæki yrðu stöðugt að reyna að þenjast út annars væri voðinn vís. „Vogun(arsjóðir) vinna en tapa ekki" hefði getað verið þeirra kjörorð. Milton Friedman sagði að einungis þau fyrirtæki sem stefndu að hámarksgróða og gæfu ekkert eftir myndu lifa af í samkeppninni, þess utan væri þessi sókn í hámarksgróða öllum til góðs, „græðgi er góð". En hagfræðingurinn John Kay segir annað í bók sinni The Truth about Markets. Hann vitnar í rannsóknir á fyrirtækjum sem sýni að farsælustu fyrirtækin séu ekki ofurgráðug. Hann segir að sú óheillaþróun sem varð þegar forstjórar vestra fóru að semja um ofurlaun og allra handa fríðindi hafi orðið til þess að þeir hafi tekið mikið fé út úr fyrirtækjum sem þeir unnu hjá. Þetta sé ein ástæða fjármálakreppunnar á níunda tugnum og aðal­ástæðan fyrir hruni Enrons.

Þessir menn fóru eftir forskriftum Friedmans um að öllum sé fyrir bestu að einstaklingar á markaði hegði sér í samræmi við upplýsta eigingirni. Þessi „business"-skóla-mennska gegnsýrir íslenska „busi$$ness"-menn nema hvað eigingirnin vill verða með óupplýstara móti.



Mörg markaðskerfi!

Hvernig ber Íslendingum að bregðast við kreppunni? Væri ekki ráð að þeir drægu aðeins úr markaðsdýrkun sinni? Væri ekki ráð að íslenskir kaupsýslumenn hættu að fara eftir forskriftum, ættuðum frá Milton Friedman? Væri ekki ráð að Íslendingar reyndu að finna gerð markaðskerfis sem hæfir íslenskum aðstæðum í stað þess að stæla Ameríkumenn?

Fræðimenn á borð við áðurnefndan John Kay og heimspekinginn John Gray segja það hina mestu firru að aðeins ein gerð markaðskerfis virki. Hið árangursríka markaðskerfi Suður-Kóreu sé allt öðruvísi en hið ameríska og vel aðlagað kóreskum aðstæðum. Finnska útgáfan hæfir Finnum vel og svo framvegis.

Steingrímur Hermannsson hafði bæði á réttu og röngu að standa þegar hann sagði að önnur efnahagslögmál giltu á Íslandi en annars staðar. Hið rétta er að það eru ekki til nein efnahagsslögmál, aðeins þumalfingursreglur sem hæfa misvel á mismunandi stöðum á mismunandi tímum.

Höfundur er prófessor í heimspeki við Háskólann í Lillehammer.






Skoðun

Sjá meira


×