Viðskipti innlent

Green á að hafa boðið ríkinu lán upp á 200 milljónir punda

Breski auðjöfurinn Philip Green á að hafa boðist til að lána íslenska ríkinu 200 milljónir punda. Í viðtali á Sky í gærkvöldi sagðist hann ætla að koma í veg fyrir að verslunum Baugs verði lokað, slíkt myndi hafa slæm áhrif á ímynd verslunar í Bretlandi.

Green sló á létta strengi í viðtalinu og sagðist hafa verið að veiða nokkrar verslanir sem væru á hafsbotni en hann hafi heyrt af því að það væri gaman að veiða á Íslandi. Þar sagðist hann eiga von á símtali innan næsta klukkutíma um hvort tilboði hans um að kaupa skuldir Baugs í íslensku bönkunum yrði tekið. Hann sagði jafnframt að ef tilboðinu yrði tekið þá myndi það skýrast innan eins til tveggja sólarhringa.

Green lagði áherslu á að rekstur fyrirtækja Baugs í Bretlandi væri góður og sagðist hann hafa engan áhuga á að loka búðunum. Slíkt myndi hafa slæm áhrif á ímynd verslunar í Bretlandi og þar af leiðandi á fyrirtæki hans. Green sagðist jafnframt hafa boðist til þess að lána Baugi fé ef það reyndist nauðsynlegt. Heimildir fréttastofu herma að hann hafi boðið íslensku ríkinu lán í breskum banka upp á 200 milljónir punda.

Verði tilboði Green, sem er níundi ríkasti maður Bretlands, tekið verður hann næst stærsti smásali Bretlands. Knútur Þórhallsson, í skilanefnd Kaupþings, vildi ekki tjá sig um hvort að tilboðinu hafi verið tekið.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×