Viðskipti erlent

Fjármálakreppan á eftir að versna

MYND/Reuters

Hin alþjóðlega fjármálakreppa á eftir að versna og líklegt er að stór bandarískur banki fari á hausinn á næstu mánuðum. Þetta segir fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Kenneth Rogoff.

Greiningaraðilar í Bandaríkjunum hafa að undanförnu gert því skóna að það versta sé yfirstaðið í kreppunni sem rekja má til undirmálslánakreppu í Bandaríkjunum í fyrra. Rogoff, sem nú er prófessor í hagfræði við Harvard-háskóla, segir hins vegar að menn séu ekki komnir yfir erfiðasta hjallann og að enn sé von á slæmum tíðindum úr efnahagslífinu.

„Við munum ekki aðeins sjá meðalstóra banka fara í gjaldþrot á næstu mánuðum heldur mun stór banki, annaðhvort stór fjárfestingarbanki eða viðskiptabanki, leggja upp laupana," sagði Rogoff á ráðstefnu í Singapúr.

Þá sagði Rogoff að Fannie Mae og Freddie Mac, stærstu íbúðalánasjóðir vestan hafs, yrðu að líkindum ekki til í núverandi formi innan nokkurra ára og von væri á frekari samþjöppun í fjármálakerfinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×