Viðskipti innlent

Orð fjármálaráðherra óheppileg

MYND/GVA

Og orð fjármálaráðherra eru afar óheppileg, segir forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, en ráðherra hefur sagt að hætt hafi verið við, alla vega í bili, að íslenska ríkið taki 500 milljarða króna lán til að styrkja gjaldeyrisforða sinn. Fyrst verði kjörin að batna, segir ráðherra.

Frumvarp til laga um heimild til fjármálaráðherra að taka lán fyrir allt að 500 milljarða var samþykkt á Alþingi í maí í vor. Tilgangurinn var að styrkja gjaldeyrisvarasjóð landsmanna. Ekkert hefur bólað á láninu. Árni Mathiesen fjármálaráðherra segir að lántöku hafi nú verið frestað vegna þess hversu slæm lánakjör séu á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum. Lánið yrði ekki tekið á þeim kjörum sem nú byðust.

„Ég sé ekki að kjörin séu endilega að fara að lagast og þess vegna finnst mér óheppilegt að við lýsum yfir að við séum ekki tilbúin til að taka lán á þessum kjörum," segir Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, í samtali við Markaðinn.

Haft er eftir fjármálasérfræðingi hjá UBS í Lundúnum að þrátt fyrir slæm kjör á markaði nú telji hann að Íslendingar eigi að taka lán strax til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn því kjörin komi ekki tl með að batna á næsta hálfa ári, jafnvel versna.

Edda bendir á að í júlímánuði hafi gjaldeyrisvaraforðinn aukist um ríflega 25 milljarða króna með útgáfu víxla bæði í dollurum og evrum, „þannig að það er greinilega eitthvað að gerast og ég myndi þá frekar túlka þessi orð ráðherra sem einhvers konar óheppilega lýsingu á því sem er að gerast frekar heldur en að þetta sé endilega allt í lás. Menn eru að leita hvar borgar sig að gefa út. Núna greinilega vildu menn víxlana sem eru reyndar stutt lánaform sem er kannski ekki akkúrat það sem maður vildi helst sjá en á meðan annað er ekki fyrir hendi þá er það kannski best," segir Edda.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×