Viðskipti innlent

Krónubréf fyrir 20 milljarða hafa fallið á gjalddaga í mánuðinum

Ekki var framlengt í útgáfu krónubréfa upp á fimm milljarða króna sem runnu út í dag. Það hafði hins vegar engin teljandi áhrif á gengi krónunnar, eftir því sem segir í hálffimmfréttum Kaupþings.

Þar segir enn fremur að ekki hafi verið gert ráð fyrir framlengingu. Það sem af er mánuði hafa 20 milljarðar í krónubréfum fallið á gjalddaga og er framhald á nokkuð stórum gjalddögum á komandi mánuðum. Þannig munu 85 milljarðar falla á gjalddaga fram að áramótum og 257 milljarðar næsta árið eftir því sem greiningardeild Kaupþings segir.

„Skortur á lausafé hefur gert útgefendum krónubréfa erfitt fyrir að nýta sér háa íslenska vexti í gegnum gjaldeyrisskiptamarkað og hefur hvatinn fyrir útgáfu nýrra krónubréfa því verið takmarkaður síðan lausafjárskorturinn skall á af öllu afli. Helst hafa fjárfestar snúið sér að ríkisskuldabréfum til að nýta sér vaxtamun milli hagkerfa.

Útgefendur krónubréfa munu sjá sér lítinn hag í því að framlengja bréfum sínum þegar nær dregur gjalddaga snúi lausafjárskorturinn ekki til betri vegar í tæka tíð. Gæti það í raun þýtt að krónan haldist veik meðan útistandandi krónubréf mjatla nær gjalddaga fari svo að alþjóðleg lausafjárþurrð lagast ekki. Seðlabankinn gæti mætt slíkri atburðarrás með aukinni útgáfu skuldabréfa en stór galli við slíka aðgerð væri enn aukinn skortur á krónum sem myndi þrengja að fjármálastofnunum og takmarka frekar útlán innanlands með tilheyrandi hættu á samdrætti," segir í hálffimmfréttum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×