Lífið

Grafarvogsbúi eignaðist dóttur átta mínútur í átta þann 08.08.08

Breki Logason skrifar
Cecilía Rán 5 ára með litlu systur sinni.
Cecilía Rán 5 ára með litlu systur sinni.

Hrund Guðmundsdóttir og Rúnar Haraldsson eignuðust sitt annað barn á föstudaginn. Það má segja að talan átta hafi spilað stórt hlutverk í fæðingu barnsins sem er stúlka. Á föstudaginn var nefnilega 08.08.08 og fæddist stúlkan átta mínútur í átta. Einnig vóg fylgjan 888 grömm. Móðirin segist telja líklegt að átta verði happatala dótturinnar.

„Hún átti að fæðast þann sjöunda en þetta er ansi flott kennitala sem hún fær," segir Hrund sem býr í Grafarvogi með sambýlismanni sínum og fimm ára gamalli dóttur, Cecilíu Rán.

Fæðingin gekk mjög vel en stúlkan var annað barnið sem fæddist þennan dag. „Ég var nú búin að tala um að það gæti verið gaman að eiga hana þennan dag, en bjóst ekki við að ganga fram yfir með hana. Ég gekk samt 9 daga fram yfir með hina stelpuna," segir Hrund sem var í skýjunum með stúlkuna.

Ekki er búið að nefna stúlkuna og segir Hrund að ekki sé einu sinni búið að ákveða nafnið. Hún telur líklegt að átta verði happatala stúlkunnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.