Viðskipti innlent

Aldrei meiri veltuaukning á milli ára í dagvöruverslunum

MYND/Sigurður Jökull

Velta í dagvöruverslun jókst um rúm 22 prósent í júlí síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og hefur vöxturinn aldrei verið meiri frá því að farið var að mæla smásöluvísitöluna árið 2001. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Hins vegar jókst veltan um 3,2 prósent ef miðað er við fast verðlag. Í tilkynningu Rannsóknarsetursins segir að verðlagshækkanir vega þarna þyngst í aukinni veltu en verð á dagvöru hækkaði um rúm 18 prósent á einu ári, frá júlí í fyrra til júlí á þessu ári.

Þá sýna tölur Rannsóknarseturs verslunarinnar að áfengissala hafi aukist í júlí. Hún jókst um rúman fjórðung miðað við breytilegt verðlag en 17 prósent ef tekið er mið af föstuverðlagi. Bent er á að áfengsverð hafi hækkað um átta prósent milli ára.

Þá jókst sala á fatnaði einnig á milli ára og reyndist rúmlega sjö prósentum meiri á breytilegu verðlagi og nærri fjórum prósentum á föstu verðlagi í júlí miðað við sama mánuð í fyrra. Verð á fötum lækkaði um 12,5 prósent á milli mánaðanna júní og júlí og eiga sumarútsölur líklega stærstan þátt í því. Verð á fötum hækkaði hins vegar um 3,1 prósent á síðustu 12 mánuðum, sem eru minni hækkanir en í flestum öðrum vöruflokkum.

Samanlögð velta í smásöluverslun eykst um sjö prósent

Enn fremur segir í tilkynningunni að samanlögð velta í smásöluverslun hafi aukist um tæp sjö prósent á milli júlí í ár og sama mánaðar í fyrra á föstu verðlagi og um nærri 23 prósent á breytilegu verðlagi. Dagvara og áfengi vega þar þyngst.

Bent er á að miklar sveiflur hafi verið í verslun að undanförnu. „Í maí og júní varð raunlækkun í veltu dagvöruverslunar sem ekki hafði sést um langt skeið, en í júlí jókst velta aftur umfram verðlagshækkanir. Ef til vill ræður gott veðurfar í júlí þar einhverju um auk þess sem fimmtudagur fyrir verslunarmannahelgi var síðasti dagur júlímánaðar, en það er jafnan söluhár dagur í dagvöru- og áfengisverslun. Auk þess er nú hagstæðara fyrir erlenda ferðamenn að kaupa mat og drykk hér á landi en undanfarin ár, sem gæti haft sín áhrif," segir í tilkynningu Rannsóknarseturs verslunarinnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×