Viðskipti innlent

Davíð vill alþjóðlega rannsókn á atlögu óprúttinna miðlara

Davíð Oddson, Seðlabankastjóri sagði í ræðu sinni á ársfundi bankans í dag að til álita komi að gera alþjóðlega rannsókn á því sem hann kallar tilræði við heilbrigð fjármálakerfi. Davíð sagði að nú stæði yfir atlaga óprúttinna aðila gegn íslenska ríkinu og innlendum bönkum.

„Síðustu mánuði hefur borið á vafasamri hegðun á alþjóðlegum mörkuðum," sagði Davíð. „Nýleg dæmi eru rógsherferð gegn breska HBOS bankanum sem skaðaði hann mikið, þótt tímabundið væri. Það mál er nú í rannsókn. Í annan stað er dæmi frá Írlandi, sem bendir í sömu átt."

Davíð bætti við: „Og því er ekki að neita að sú atlaga sem þessa dagana er gerð að íslenskum bönkum og íslenska ríkinu, en tryggingarálög á það hækkuðu í dag í yfir 400 punkta sem er fráleitt, lyktar óþægilega af því að óprúttnir miðlarar hafi ákveðið að gera úrslitatilraun til að brjóta niður íslenska fjármálakerfið. Þeim mun ekki takast það. En til álita hlýtur að koma að gera alþjóðlega opinbera rannsókn á slíku tilræði við heilbrigð fjármálakerfi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×