Viðskipti innlent

Síldarvinnslan með 2,5 milljarða kr. hagnað

Síldarvinnslan hf. var rekin með 2. 507 milljóna kr. hagnaði fyrir skatta á árinu 2007. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, er 2.738 milljónir kr. eða 27% af rekstrartekjum.

 

Í tilkynningu um uppgjörið segir að árið 2007 var félaginu hagstætt. Afurðaverð á mjöli og lýsi var hátt í upphafi árs, en mjölverð lækkaði þegar leið á árið. Olíuverð var hátt á árinu. Markaðir fyrir frystar afurðir voru sterkir. Fyrirtækið sameinaðist Súlunni ehf. og Garðar Guðmundssyni ehf.

 

Unnið var að hagræðingu á skipakosti félagsins og voru tvö skip seld, Beitir NK og Birtingur NK. Haldið var áfram að hagræða í fiskimjölsverksmiðjunum. Tæp 50 þúsund tonn af hráefni voru unnin til manneldis á síðasta ári sem er mesta magn sem farið hefur í gegnum frystihús félagsins á einu ári.

Heimsmarkaðsverð á lýsi er hagstætt um þessar mundir og vísbendingar um að mjölverð muni styrkjast aftur þegar líður á árið. Gengi íslensku krónunnar hefur lækkað sem er fyritækinu hagstætt þar sem tekjur þess eru í erlendri mynt. Loðnukvóti í ár var minni en væntingar stóðu til, mikil óvissa ríkti allt til loka vertíðar sem gerði allt skipulag erfitt.

Fyrirtækið telur brýnt að auka rannsóknir á loðnustofninum. Í því skyni hefur verið fjárfest í búnaði fyrir skip félagsins sem nýst getur til rannsókna á honum. Ekki verður við það búið lengur að rannsóknir á loðnustofninum séu háðar útgerð tveggja skipa og sífelldar deilur standa um stýringu þeirra.

 

Kolmunnakvótinn minnkaði töluvert á milli ára, en gott útlit er með veiði úr norsk íslenska og íslenska síldarstofninum. Niðurskurður á þorskstofninum kemur illa við rekstur bolfiskskipa félagsins.

 

Þá segir að olíuverð hafi hækkað áfram á árinu og er orðið óbærilega hátt fyrir útgerðina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×