Innlent

Skýra stöðuna fyrir tollvörðum á næstunni

MYND/GVA

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra segir að ráðuneytið muni á næstunni reyna að skýra stöðuna fyrir tollvörðum sem eru afar óánægðir með þær hugmyndir að skilja eigi að tollgæslu og lögreglu á Suðurnesjum.

Samkvæmt ákvörðun stjórnvalda munu lögreglumál heyra undir dómsmálaráðuneytið og tollgæslan undir fjármálaráðuneyti eftir breytingarnar. Þær eru tilkomnar vegna ágreinings um fjármuni til embættisins.

Tollverðir funduðu í gær og sendu í kjölfari frá sér ályktun þar sem ákvörðun stjórnvalda er mótmælt. Engar efnislegar eða fjárhagslegar ástæður séu fyrir ákvörðuninni og þá óttist tollverðir að hún geti haft áhrif á góðan starfsanda og árangur hjá embætti lögreglu- og tollstjóra á Suðurnesjum.

Eins og fram hefur komið hefur Jóhann R. Benediktsson, lögreglu- og tollstjóri, beðist lausnar og samkvæmt heimildum Vísis er það vegna óánægju með breytingarnar. Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra sagði ráðuneytið myndu reyna að skýr málið fyrir tollvörðum og reynt yrði að halda út eins sterkri starfsemi og mögulegt væri í Leifsstöð. Spurður um brotthvarf Jóhanns sagði Árni að ákvörðunin væri Jóhanns en hann sæi á eftir honum. Auðvitað væri verið að breyta þeirri stöðu sem hann gengdi og embættinu.

Nefnd ekki falið að gera tillögur um lækkun á eldsneytisálögum

Árni var einnig spurður út í það eftir ríkisstjórnarfund í morgun hvort álögur á eldsneyti yrðu lækkaðar og hvort von væri á að tillögur nefndar fjármálaráðuneytsins um eldsneyti yrðu gerðar opinberar. Árni benti á að nefndinni hefði verið falið að koma með tillögur að samhæfingu á gjaldtöku fyrir eldsneyti og bifreiðar á sem bestan og umhverfisvænastan hátt en ekki að gera tillögur um lækkanir á álögum.

Árni var enn fremur spurður um það hvaða skilaboð hann hefði til almennings í ljós efnahagsástandsins. Árni sagði að aðalfundur Seðlabankans yrði í dag og forsætisráðherra myndi flytja ræðu þar. Hann teldi ekki rétt að tjá sig um stöðu mála fyrr að henni lokinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×