Viðskipti innlent

Glitnir reiknar með 10% verðbólgu í næsta mánuði

Greining Glitnis reiknar með því að verðbólgan fari nálægt 10% í næsta mánuði. Hinsvegar verði verðbólgukúfurinn nú tiltölulega skammvinnur og að draga muni úr verðbólguhraðanum á síðari hluta þessa árs og að 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans muni nást upp úr miðju næsta ári.

„Verðhækkun vegna gengislækkunar krónunnar virðist vera að koma hratt fram og hraðar en í venjulegu árferði sem er á vissan hátt eðlilegt í ljósi þess hversu mikil og skjót gengislækkunin hefur verið undanfarið. Verðbólguþrýstingur vegna annarra þátta en gengis hefur einnig áhrif og í því efni má helst nefna verðhækkun á vörum erlendis og innlendur kostnaðarauki meðal annars mikil launahækkun á síðasta ári og leiguhækkun," segir í Morgunkorni greiningarinnar.



Sökum þessarar stöðu gerir greiningin ráð fyrir að stjórn Seðlabankans muni á ný hækka stýrivexti sína þann 10. apríl sem er næsti hefðbundni vaxtaákvörðunardagur bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×