Viðskipti innlent

Verðbólgan mælist 8,7 prósent - Ekki hærri í sex ár

Verðbólgan mælist nú 8,7 prósent á ársgrundvelli. Þetta kemur fram í mælingu Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs í morgun. Til samanburðar var hún 6,8 prósent í síðasta mánuði. Verðbólgan hefur ekki verið hærri í rúm sex ár.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að vísitala neysluverðs hafi hækkað um 1,47 prósent á milli mánaða. Kostnaður vegna reksturs eigin bifreiðar jókst um 3,1 prósent, en þar af hækkaði verð á nýjum bílum um 2,9 prósent og á bensíni og olíum um fimm prósent

Vetrarútsölum er víðast lokið og hækkaði verð á fötum og skóm um 6,3 prósent . Kostnaður vegna eigin húsnæðis jókst um 1,1 prósent, þar af voru 0,15 prósent áhrif vegna hærri raunvaxta og 0,07 prósent vegna hækkunar á markaðsverði húsnæðis.

12,8 prósenta verðbólga síðustu þrjá mánuði

Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,1 prósent sem jafngildir 12,8 prósenta verðbólgu á ári.

Verðbólgan hefur undanfarin sjö ár, eða frá því að verðbólgumarkmið var tekið upp, verið að meðaltali 4,7 prósent, eða nærri tvöfalt verðbólgumarkmiðið. Hæst hefur verðbólgan farið á tímabilinu í 9,4 prósent og var það í janúar 2002. Þá mældist hún 8,9 og 8,7 prósent í febrúar og mars sama ár. Lægst hefur verðbólgan verið 1,4 prósent en það var í janúar 2003.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×