Viðskipti innlent

Hráfæði og bjúgu geta farið saman

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Sólveig Eiríksdóttir Himnesk hollusta, Maður lifandi og Grænn kostur mynda núna heilsusamstæðu þar sem saman fer bæði heildsala og smásala heilsuvarnings, auk veitingareksturs og matsölu.
Sólveig Eiríksdóttir Himnesk hollusta, Maður lifandi og Grænn kostur mynda núna heilsusamstæðu þar sem saman fer bæði heildsala og smásala heilsuvarnings, auk veitingareksturs og matsölu. Markaðurinn/Valli
„Við sjáum fyrir okkur útrás,“ segir Sólveig Eiríksdóttir, athafnakona og einn eigenda Himneskrar hollustu, þegar hún er spurð út í hvað framtíðin beri í skauti sér fyrir fyrirtæki hennar. Í ár segir hún áhersluna hins vegar lagða á að samþætta rekstur heilsu­fyrirtækjanna þriggja sem runnu saman um áramótin, en það eru Himnesk hollusta og Maður lifandi, auk Græns kosts, sem bættist í hópinn á síðustu metrum nýliðins árs.

Þarna er því orðið til nokkuð öflugt fyrirtæki á heilsu­markaði þar sem til stendur að nýta sérstöðu hvers og eins, öfluga heildsölu og smásölu, auk veitingareksturs.

Eigendahópur heilsusamstæðunnar er nokkuð dreifður. Salt Investments, fjárfestingarfélag Róberts Wessmans, kemur þar að með fjármögnun, en að auki eru þar Hjördís Ásberg sem stofnaði Mann lifandi og hjónin Sólveig Eiríksdóttir og Elías Guðmundsson, sem er framkvæmdastjóri Himneskrar hollustu. Þá var í eigendahópi Himneskrar hollustu Wilhelm Wessman, faðir Róberts.

Sólveig stofnaði fyrirtækið Grænan kost árið 1994 og hefur í tali manna oft verið kennd við þann stað, Solla á Grænum kosti. Hún seldi reksturinn Hjördísi Gísladóttur, meðeiganda sínum, fyrir tæpum fjórum árum, en sló til og keypti sig aftur inn í reksturinn í desember þegar óvænt gafst tækifæri til þess. „Næsta mál á dagskrá er að finna húsnæði undir þetta allt saman,“ segir hún og telur mikil samlegðaráhrif með fyrirtækjunum þremur. Himnesk hollusta og Maður lifandi, sem rekur heilsubúðir með matsölu, eru sambærileg að stærð og Grænn kostur svo heldur minni.

Hjördís Ásberg stofnaði Mann lifandi fyrir um þremur árum í Borgartúni í Reykjavík og hefur sú starfsemi dafnað mjög síðan þá. Elías Guðmundsson skýtur á að velta hafi tvöfaldast hjá báðum fyrirtækjum síðustu tvö ár.

Núna stendur starfsemin þannig að Maður lifandi er með vöru- og veitingasölu, Grænn kostur er með matsölu og heimsendingu, en þar stendur til að fjölga útsölustöðum, og svo er Himnesk hollusta með innflutning á vörum sem dreift er hér í verslanir.

Sólveig og Elías segjast líta svo á að matsölustaðirnir séu nokkurs konar uppeldisstöðvar þar sem fólk geti kynnst mataræðinu og nálgast svo hráefnið í matargerðina á auðveldan máta í almennum matsöluverslununum. Þá komi jafnvel til greina að taka upp framleiðslu á tilbúnum réttum, svo sem vefjum og samlokum, sem fólk geti keypt úti í búð.

Áhugi á heilsufæði segir Sólveig að fari stöðugt vaxandi, en það segir hún bæði mega merkja af auknu umfangi rekstursins og því hversu mikið sé að gera hjá henni í margvíslegu fræðslustarfi tengdu heilsufæðinu. „Í þessu fer nefnilega saman bæði hugsjón og viðskipti,“ segir hún og telur að þannig þurfi þetta að vera. Viðskiptaþáttinn segir hún reyndar stöðugt sækja á í þessum geira. Fyrir bara fimm til sex árum var þorri þeirra sem sóttu alþjóðlegar sölusýningar hugsjónafólk.

„Maður leit á fótabúnað fólksins og velti fyrir sér hvort viðkomandi hafi búið skóna til sjálfur,“ segir hún svona til að draga upp mynd af manngerðinni og hlær. „Á síðasta ári var kannski tíundi partur í þessum hópi. Núna eru komnir inn viðskiptamennirnir og svo hugsjónafólk sem hefur viðskiptavætt sig, auk svo þessara gömlu sem verða náttúrlega að vera með.“

Áhugi á heilsufæði segir Sólveig að hafi gengið í bylgjum sem sífellt hafi undið upp á sig. Þannig segir hún að hafi til dæmis verið mikill áhugi á slíku í Evrópu skömmu fyrir fyrra stríð. „Allt fer þetta í hringi og styttist alltaf á milli.“

Árið 1994 segir hún svo hafa verið hárréttan tíma til að opna Grænan kost. Sjálf hafði hún breytt um mataræði árið 1980, sumpart tilneydd vegna ofnæmis fyrir sumum dýraafurðum. Sólveig þekkti hins vegar vel til heilsufæðis því amma hennar kynntist slíku fæði í Kaupmannahöfn þegar hún var þar ung kona í hjúkrunarnámi og bjó hjá fólki sem aðhylltist hrá­fæði. Þekkinguna hafði hún með sér heim.

„Það var sko hráfæði, ekki bara eitthvert grænmetisfæði,“ segir Sólveig, og bætir við að um 1950 hafi aftur komið dálítil bylgja í heilsufæðinu. „Þá kom út bókin Lifandi fæði, en af henni átti amma eintak og arfleiddi mig að. Svo kom aftur svona bylgja með 68-kynslóðinni og það eru leifarnar af henni sem ég næ í sjálf þegar ég flyt til Kaupmannahafnar árið 1978.“

Sólveig segir fræðslu skipa stóran sess í starfi hennar og í raun lykilatriði í að vinna að framgangi og eflingu vitundar fólks um mikilvægi mataræðis. „Alls staðar er verið að tala um velmegunar- og lífsstílssjúkdóma og hvergi orðið sett spurningarmerki við að tengja þá mataræði,“ segir hún, en bætir um leið við að ekki dugi að vera með neinn einstrengingshátt í að kynna nýtt mataræði.

„Fólk er líka farið að átta sig á að þetta þarf ekki að vera annaðhvort eða. Það er alveg hægt að fá sér æðislegt grænmetis­salat í hádeginu og drekka græna djúsa yfir daginn, en fá sér svo bara bjúgu um kvöldið ef mann langar í. Bjúgu og hráfæði geta farið saman,“ segir Sólveig og skellihlær.

Framtíðarsýnin segir hún svo ganga út á að nýta styrk sameinaðs fyrirtækis til að efla og auka úrval í heilsuvarningi og vinna að aðgengi allra að slíkum vörum. Síðan geti líka komið til útrásar og segir Sólveig þar nærtækt að horfa til Skandinavíu, en í Evrópu segir hún rekstur heilsufyrirtækja brotakenndari en hér og hvergi til viðlíka fyrirtæki og sameinað fyrirtæki Himneskrar hollustu og Manns lifandi. Hún segir því sóknarfæri í að færa þá þekkingu sem orðið hefur til hér til útlanda.

„Markaðurinn hér er nefnilega nokkuð langt kominn. Kannski helst að Kalifornía standi okkur framar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×