Viðskipti erlent

Bandaríski seðlabankinn til bjargar AIG

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Bandaríski seðlabankinn kom tryggingafélaginu AIG til bjargar á elleftu stundu með lánveitingu sem ákvörðun var tekin um í gærkvöldi. Lánið nemur tæplega 8.000 milljörðum íslenskra króna og var síðasta hálmstrá tryggingarisans AIG, að öðrum kosti hefði beiðni um greiðslustöðvun komið til.

Með þessari neyðarráðstöfun eignast Bandaríkjastjórn 80 prósenta hlut í fyrirtækinu sem telst í hópi 20 stærstu fyrirtækja heims en starfsemi þess er rekin í rúmlega eitt hundrað löndum. Sérfræðingar segja lánið hafa bjargað AIG frá brunaútsölu en þó sé líklegast að fyrirtækið verði brotið upp í smærri einingar og hlutar þess seldir, þó undir þeim formerkjum að stjórn seðlabankans verður ávallt heimilt að beita neitunarvaldi til að stöðva sölu sem hún telur óæskilega.

Á þessu ári hafa hlutabréf í AIG lækkað um 94 prósent og höfðu allir bankar lokað dyrum sínum fyrir því þegar seðlabankinn ákvað að stíga fram til bjargar. Allar eigur AIG og dótturfyrirtækja þess munu standa til tryggingar láninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×