Viðskipti innlent

Geir töluvert bjartsýnni á verðbólguþróun en greiningardeildir

Geir Haarde forsætisráðherra er töluvert bjartsýnni á verðbólguþróunina á næsta ári en greiningardeildir Landsbankans og Glitnis. Geir segir í samtali við Reuters í London í gær að hann telji að verðbólgan verði komin nálægt 2,5% um mitt næsta ár.

Í nýrri verðbólguspá greiningar Landsbankans segir að verðbólgan á næsta ári verði að meðaltali um rúm 6% og í nýrri þjóðhagsspá greiningar Glitnis er verðbólgustigið talið vera á svipuðum nótum um mitt næsta ár. Greining Glitnis segir að verðbólgan nái 2,5% á þriðja ársfjórðungi næsta ár en 2,5% er verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Þá er Geir mun bjartsýnni en greining Glitnis hvað hagvöxtinn varðar. Geir telur að hann verði 2% á þessu ári en greining Glitnis spáir engum hagvexti í ár og á næsta ári.

Reuters náði tali af Geir Haarde á hliðarlínunni eins og það var orðað á ráðstefnu Alþjóðaorkumálaráðsins í London. Fram kemur m.a. í samtalinu að Geir telji íslenska bankakerfið traust og að gengi íslensku krónunnar sé vanmetið.

"Höfuðvandamál okkar er verðbólgan en við teljum að draga muni úr henni á seinnihluta þessa árs," segir Geir Haarde.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×