Viðskipti erlent

Samkomulag um björgunarhringinn í burðarliðnum

Wall Street.
Wall Street. MYND/AFP

Demókratar og repúblíkanar á Bandaríkjaþingi hafa náð samkomulagi um milljarða frumvarp til að bjarga bágstöddum fjármálafyrirtækjum í efnahagskreppunni í Bandaríkjunum. Talið er að það fari í gegnum þingið á næstu dögum.

Ekki er vitað hvað felst í sakomulaginu en frumvarpið hefur setið fast í þinginu í nokkra daga. Talið er að nýtt frumvarp tryggi eftirlit með sextíu þúsund milljarða króna sjóði sem fé verður veitt úr til að kaupa undirmálslán bandarískra fjármálafyrirtækja sem eru í kröggum. Einnig verði sett þak laun stjórnenda þeirra fyrirtækja sem þurfi hjálp. Þetta var ekki í upphaflega frumvarpinu.

Repúblíkanar sem og demókratar höfðu gagnrýnt frumvarpið en um leið þrýsti Bush Bandaríkjaforseti á að það yrði samþykkt þegar hann ávarpaði þjóð sína í sjónvarpi í gær.

John McCain, forsetaefni repúblíkana, og Barack Obama, forsetaframbjóðandi demókrata, eiga fund með Bush Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu klukkan átta í kvöld þar sem málið verður til umræðu. McCain hefur frestað kosningabaráttu sinni vegna stöðu mála. Hann vill fresta fyrirhuguðum kappræðum við Obama í Mississippi annað kvöld.

Enn er óvíst hvort af kappræðunum verður.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×