Skoðun

Eru berin alltaf súr?

Það er með ólíkindum hvernig umræðan hefur verið um þær breytingar sem Íslandspóstur hefur boðað í sambandi við lokun póstafgreiðslustaða og fækkun póstburðardaga á landsbyggðinni. Einkum eru það félagar í VG sem farið hafa mikinn og gildir þá einu hvaða forsendur liggja á bak við þessar ákvarðanir Íslandspósts, því tilgangurinn helgar meðalið hjá félögum í VG. Íslandspóstur fækkar ekki póst­burðar­dögum eða lokar póstafgreiðslustöðum að gamni sínu. Það er mikill misskilningur að halda því fram að einhver skerðing á þjónustu felist í því að fækka póstburðardögum úr 5 í 3 á viku ef enginn póstur er til flutninga. Það getur tæpast verið mikil þjónusta fólgin í því að láta póstbíla aka tóma hundruð kílómetra á dag út um allt land. Á þeim afgreiðslustöðum sem hefur verið og mun verða lokað á næstu misserum hafa verið sárafáar afhendingar á dag og að mati Íslandspósts munu landpóstar auðveldlega geta haldið uppi sama þjónustustigi og í flestum tilvikum verður það betra.

Allt frá stofnun Íslandspósts 1997 hefur það verið stefna að gera fyrirtækið að alhliða sterku flutningafyrirtæki. Á fyrstu árunum eftir aðskilnaðinn við Símann þurfti að breyta rekstrinum mjög og treysta fyrirtækið og skapa því góð rekstrarskilyrði. Það var erfitt en tókst og þegar á árinu 2004 samþykkti stjórnin að treysta stöðu Íslandspósts á landsbyggðinni með því að byggja 10 ný pósthús. Sú ákvörðun stjórnar grundvallaðist að sjálfsögðu á þeirri stefnu að auka enn betur alla þjónustu við landsbyggðina.

Það eru því örgustu öfugmæli oað lesa það í dagblöðum sí og æ að Íslandspóstur sé að draga úr þjónustu sinni við landsbyggðina eins og feðgarnir Jón Bjarnason þingmaður VG og Bjarni Jónsson, sveitarstjórnarfulltrúi í Skagafirði, hafa gert. Mér finnst raunar afstaða þeirra feðga mjög í anda VG og hafa þann eina tilgang að vera á móti öllu og öllum. Í grein Bjarna Jónssonar í Fréttablaðinu 10. september kemur raunar fram að tilgangurinn með greininni er eingöngu að koma höggi á samgönguráðherra og Samfylkinguna, en hefur ekkert með póstdreifingu að gera.

Sem stjórnarmanni í Íslandspósti til margra ára gremst mér að lesa stöðugt þær fullyrðingar sjálfskipaðra talsmanna landsbyggðarinnar úr VG, að við séum alltaf að vinna skemmdarverk gagnvart landsbyggðinni. Að sjálfsögðu ber stjórn fyrirtækisins fulla ábyrgð á stefnunni og samgönguráðherra hverju sinni kemur þar ekkert nærri. Okkur ber að reka fyrirtækið sem best og bera hag þess fyrir brjósti. Mér er ekki kunnugt um einhver lög um póstþjónustu, sem kveða á um lágmarksfjölda póstafgreiðslna á landinu, enda væri slíkt út í hött. Það eru hins vegar skýr áform Íslandspósts að tryggja öllum landsmönnum góða og örugga þjónustu og búa fyrirtækið undir breytt rekstrarumhverfi. Í ársbyrjun 2011 fellur einkaréttur Íslandspósts á dreifingu bréfa niður og þá verður fyrirtækið að vera tilbúið að keppa við samkeppnisaðila á jafnréttisgrunni. Ef Íslandspóstur nær ekki þeim markmiðum sínum, gæti ég trúað, að þá fyrst mætti landsbyggðin hafa áhyggjur af þjónustunni.

Höfundur er varaformaður stjórnar Íslandspósts.




Skoðun

Sjá meira


×