Viðskipti erlent

Breskur veðbanki tapaði stórt á gjaldþroti XL Leisure

Breski veðbankinn Paddy Powers tapaði stórt á gjaldþroti XL Leisure Group. Raunar var ásóknin í að veðja á gjaldþrotið svo mikil að veðbankinn neyddist til að loka fyrir frekari veðmál síðdegis í gær.

Paddy Powers hafði opið fyrir áhugasama um að veðja á hvað flugfélag myndi næsta fara á hausinn. Upphafleg var XL ekki á þeim lista en sökum mikils áhuga var ákveðið að bæta félaginu við.

Í byrjun voru líkurnar á því að XL yrði gjaldþrota settar á 10/1. Þegar Paddy Powers ákvað að loka fyrir veðmálin voru líkurnar dottnar niður í 4/6.

Tap Paddy Powers á veðmálunum nemur um 10.000 pundum eða sem svarar 1,6 milljón kr. Sá sem græddi mest á gjaldþrotinu fékk 2.000 pund eða nær 400.000 kr. í sinn hlut á líkunum 4/1 en hann veðjaði 500 pundum á gjaldþrotið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×